Eins og Viðskiptablaðið greindi frá fyrr í dag taldi Samtök starfsmanna fjármálafyrirtækja (SSF) félagsmenn sína hafa fellt kjarasamning samtakanna og Samtaka atvinulífsins (SA) sem undirritaður var í byjun maí. Eftir ábendingu frá SA um að SSF hafi mistúlkað niðustöðurnar var tilkynning þess efnis tekin úr loftinu.

Á heima­síðu SSF var greint frá því að kjör­sókn hafi verið 76,1%. Af þeim sem kusu sam­þykktu 1292 fé­lags­menn samninginn á meðan 1322 fé­lags­menn höfnuðu honum. Þá tóku 107 ekki af­stöðu. Ábendinga SA snerist um að meirihluta þyrfti til að fella samninginn.

Nú hefur SSF birt nýja tilkynningu á vef sínum þar sem kemur fram að SA telji „að „Tek ekki afstöðu“ eigi að telja með „já“ atkvæðum. SSF stendur fast á sínu og segir að samninganefnd telji félagsmenn hafa fellt kjarasamninginn.

„Stjórn SSF mun koma saman og ræða stöðuna. Mögulega verður látið á málið reyna fyrir Félagsdómi ef með þarf,“ segir í tilkynningu SSF.

Þess ber þó að geta að samkvæmt 3. málsgrein 5. greinar laga um stéttarfélög og vinnudeilur gildir kjarasamningur frá undirskriftardegi nema hann sé felldur með meiri hluta greiddra atkvæða í leynilegri atkvæðagreiðslu.

Umrætt lagaákvæði er í heild svohljóðandi:

„Þegar kjarasamningur hefur verið undirritaður af til þess bærum fulltrúum samningsaðila gildir hann frá undirskriftardegi sé ekki á annan veg samið, nema hann sé felldur við leynilega atkvæðagreiðslu með meiri hluta greiddra atkvæða og minnst fimmtungs þátttöku samkvæmt atkvæða- eða félagaskrá innan fjögurra vikna frá undirritun.“