Gangi forviðræður við Samkeppniseftirlitið vel verður samruni Arion banka og Kviku banka formlega tilkynntur til eftirlitsaðila. Samrunaferli Arion banka og Kviku banka er skipt í fjóra fasa og er ferlið nú í öðrum fasa. Í samantekt greiningarfyrirtækisins Akks segir að Arion banki hafi sjaldan verið jafn ódýr sé miðað við V/H hlutfall.

Forsvarsmenn Arion ­banka og ­Kviku ­banka hafa sent Sam­keppnis­eftir­litinu (SKE) erindi með ósk um forviðræður vegna sam­einingar bankanna. Þetta hefur Við­skiptablaðið fengið staðfest. Í þeim viðræðum verður Samkeppniseftirlitinu kynnt markmið sameiningarinnar, sem og sá ávinningur sem mun hljót­ast af henni fyrir íslenskan fjármálamarkað og neytendur.

Beiðnin til SKE um forviðræður er í takti við til­kynn­ingu sem send var í Kauphöllina 21. júlí síðastliðinn, en í ­henni kom fram að stefnt væri að því að óska eftir forviðræðum við SKE í ágúst. Gangi þær viðræður vel verður samruninn tilkynntur formlega til eftirlits­aðila og síðar lagður fyrir hluthafafundi beggja félaga.

Ferlinu er skipt í fjóra fasa

Samrunaferli Arion banka og Kviku banka er skipt í fjóra fasa. Bankarnir tilkynntu þann 6. júlí að stjórnir félaganna hefðu ­ákveðið að hefja viðræður um sameiningu og viljayfirlýsing þess efnis hefði verið undirrituð. Samkvæmt viljayfirlýsingunni fá hluthafar Kviku 485.237.822 nýja hluti í Arion banka og eign­ast með því 26% hlut í sam­einuðu félagi. Endurspeglar það gengið 19,17 krónur á hlut fyrir Kviku banka og 174,5 krónur á hlut fyrir Arion banka. Var þetta fyrsti fasi samrunans.

Í öðrum fasa samrunans eru forviðræðurnar við SKE um gerð áreiðanleikakannana. Þessi vinna er nú í gangi. Í þriðja fasa er samrunasamningur undirritaður og samrunatilkynning send til eftirlitsaðila eins og áður sagði. Fjórða fasa lýkur svo ­þegar öll skilyrði hafa verið uppfyllt og sam­þykkt af eftirlitsaðilum. Að því loknu fá hluthafar ­Kviku eignarhlut sinn í Arion ­banka afhentan og samruni Arion ­banka og Kviku banka klárast.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér.