Innflytjandi þarf að bíta í það súra epli að fá ekki að flytja inn fjórar vörutegundir til landsins. Ástæðan er sú að heilbrigðisvottorð og auðkenningar á vörunum uppfylltu ekki skilyrði reglugerða sem um þær gilda.

Þetta er niðurstaða sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins (SRN) sem staðfesti með því ákvörðun Matvælastofnunar (MAST). Vörurnar fjórar eru ýmis konar snarl hugsað til djúpsteikingar á borð við mozzarella stangir, chili og ostabitar og ostastangir framleiddar af McCain.

Reglugerðin sem undir var í málinu ber afar óþjált heiti, það er reglugerð um skrár yfir samsettar afurðir sem skulu sæta eftirliti á landamæraeftirlitsstöðvum. Samkvæmt henni skulu kjötafurðir, unnar afurðir, mjólkurafurðir og svokallaðar samsettar afurðir, sem innihalda bæði hluti úr jurta- og dýraríkinu, sæta eftirliti og uppfylla þar til gerðar kröfur.

Þó eru ákveðnar samsettar vörur undanþegnar eftirlitinu ef „minna en helmingur innihaldsins er einhver önnur unnin afurð“ svo lengi sem varan haldi stöðugleika við geymslu við umhverfishita eða „það sé öruggt að þær hafi verið fulleldaðar við framleiðslu eða meðhöndlaðar með hitun, svo að allt efnið hitni í gegn, þannig að allri hrárri afurð sé eðlisbreytt“.

Það þurfti að elda vörurnar

Í málinu byggði innflytjandinn á því að það skilyrði væri uppfyllt. Umræddar vörur hefðu fengið fullnægjandi hitameðhöndlun, það er þær væru eldaðar áður en þær væru frystar, og að þær væru óumdeilanlega samsettar vörur. Einnig væri afar óljóst hvers kyns eldun MAST teldi fullnægjandi til að vörur féllu undir undanþáguna.

MAST benti á móti á að ljóst væri fyrir, þótt vörurnar hefðu verið foreldaðar, að þær  myndu ekki halda stöðugleika við geymslu í stofuhita. Enn fremur væri eldunin aðeins til hálfs. Fingramaturinn væri snögghitaður í skamma stund og síðan frystur. Ekki væri hægt að ábyrgjast að slíkt væri nægilega öruggt til að unnt væri að markaðssetja matvælin.

Í úrskurði ráðuneytisins var fallist á sjónarmið MAST, það er að ekki væri öruggt að vörurnar héldu formi sínu við stofuhita og að þær hefðu ekki verið eldaðar til fulls áður en til frystingar kom. Síðari ályktuninni til stuðnings benti ráðuneytið á að á heimasíðu framleiðandans væri sérstaklega tekið fram að „neytandinn þurfi að elda vöruna áður en hún sé tilbúin til neyslu.“ Svoleiðis vörur gætu ekki fengið að renna á undanþágu inn í landið.

Niðurstaða MAST stendur því óhögguð. Með ákvörðun sinni hafði MAST gert innflytjandanum að farga umræddum vörum en ráðuneytið féllst á að fresta réttaráhrifum ákvörðunarinnar. Viðbúið er að vörurnar, sem komu til landsins í fimm sendingum, muni enda á haugunum í ljósi niðurstöðunnar.