Paramount Global hefur tilkynnt að það muni segja upp 800 starfsmönnum, eða rúmlega 3% af vinnuafli fyrirtækisins. Þeir starfsmenn sem koma til með að missa vinnuna fengu minnisblað þess efnis fyrr í dag.

Paramount Global á meðal annars sjónvarpsstöðina CBS, sem sýndi bandarísku Ofurskálina, en CBS greindi frá því að leikurinn hafi skilað meira áhorfi en nokkur annar þáttur í sögunni. Hátt í 123,4 milljónir manna munu hafa horft á Ofurskálina.

„Þessar breytingar munu hjálpa okkur að byggja á skriðþunga okkar og framkvæma stefnumótandi framtíðarsýn fyrir árið sem framundan er – ég trúi því að við getum verið spennt yfir mörgu,“ sagði Bob Bakish, forstjóri Paramount Global.

Auk CBS á Paramount einnig sjónvarpsstöðvarnar BET, Nickelodeon og Comedy Central en hópuppsögnin kemur samhliða fyrirhugaðri sameiningu. Paramount Global hefur átt í samrunaviðræðum við Skydance Media og Warner Bros. Discovery undanfarna mánuði.