Fly Play hf. hefur lokið við útgáfu breytanlegs skuldabréfs til tveggja ára að fjárhæð um 23 milljónir dala, sem samsvarar rúmlega 2,8 milljörðum króna. Upphafleg áskriftarloforð námu 20 milljónum dala, eða um 2.425 milljónum króna.

Play segir í tilkynningu að umframeftirspurn hafi gert það að verkum að endanleg upphæð varð hærri. Öllum fyrirvörum útboðsins hefur nú verið aflétt og fjármögnuninni því lokið.

„Þessi niðurstaða staðfestir þá tiltrú sem fjárfestar bera til Play og framtíðaráforma félagsins. Fjármögnunin styrkir rekstrargrundvöll félagsins verulega og gerir Play kleift að einbeita sér að arðbærum verkefnum og áframhaldandi vexti,“ segir í tilkynningu Play.

Play mun starfrækja fjórar vélar frá Íslandi, allar í einkennislitum félagsins með áhafnir frá Íslandi á íslenskum kjarasamningum. Vélarnar munu sinna flugi til vinsælla sólarlandaáfangastaða í Suður-Evrópu en einnig nokkurra áfangastaða í Norður-Evrópu, þar á meðal Kaupmannahafnar og Liverpool.

Hinar sex vélar flugflotans verða nýttar í leiguverkefni fyrir aðra flugrekendur, sem félagið segir tryggja stöðuga tekjustrauma allt árið um kring.

Í takt við nýja áherslu verður flugi til Norður-Ameríku hætt í lok október 2025 og borgaráfangastöðum í Norður-Evrópu fækkað. Þá verður íslenska flugrekstrarleyfinu skilað og flogið undir maltnesku flugrekstrarleyfi.

„Við erum afar ánægð með hversu sterk viðbrögð fjárfesta hafa verið. Þetta er skýr staðfesting á því að markaðurinn hefur trú á Play, framtíðarsýn okkar og þeirri stefnu sem við höfum markað. Með þessum áfanga stöndum við betur undirbúin en nokkru sinni fyrr til að dafna sem öflugt alþjóðlegt flugfélag með sterkar íslenskar rætur. Við stefnum að miklum viðsnúningi í rekstri og hlökkum til að kynna nýja og spennandi áfangastaði fyrir Íslendingum á næstunni,“ segir Einar Örn Ólafsson, forstjóri Play.