Ragnar Skúlason hefur verið ráðinn til að leiða hugbúnaðarþróun (e. head of engineering) hjá hugbúnaðarfyrirtækinu Tix Ticketing, sem sérhæfir sig í þróun miðasölu, CRM og markaðslausnum fyrir menningargeirann. Í dag starfa 40 sérfræðingar hjá Tix sem er með skrifstofur og starfsemi í 8 löndum.

Ragnar kemur frá Póstinum þar sem hann var teymisstjóri hugbúnaðarþróunar í upplýsingatæknideild. Hann starfaði áður hjá Meniga sem tæknilegur verkefnastjóri yfir innleiðingum. Þá hefur hann einnig starfað sem teymisstjóri hjá Nova og hugbúnaðarverkfræðingur hjá TM Software og GreenQloud. Ragnar er með MSc próf í hugbúnaðarverkfræði frá Háskóla Íslands.

Einar Þór Gústafsson framkvæmdastjóri vöruþróunar hjá Tix:

„Það er gríðarlegur fengur að fá Ragnar til okkar hjá Tix Ticketing. Hann hefur mikla reynslu af þróun og innleiðingu flókinna hugbúnaðarverkefna fyrir stór fyrirtæki víðsvegar um heim. Við hjá Tix höfum verið í miklum vexti erlendis síðustu ár og með fjölgun viðskiptavina á nýjum mörkuðum er gríðarlega mikilvægt að hafa sterka leiðtoga með reynslu og þekkingu til að leiða þróunarteymið okkar áfram.“

Ragnar Skúlason:

„Ég er mjög spenntur fyrir þessu tækifæri sem mér hefur verið veitt, en Tix hefur verið að framleiða einstakan hugbúnað sem hefur sannað sig á alþjóðamarkaði og stendur frammi fyrir miklum tækifærum í vexti og þróun. Við blasa margar krefjandi og spennandi tæknilegar áskoranir, bæði í tæknilegum lausnum fyrir nýja markaði og betrum bætur fyrir viðskiptavini okkar. Ég lít björtum augum á komandi misseri og hlakka til að kynnast starfsemi og viðskiptavinum Tix betur.”