Afkoma handverksbrugghúsa landsins á síðasta ári var ekki til þess að hrópa húrra yfir. Eigið fé ríflega tveggja félaga af hverjum þremur var neikvætt í ársbyrjun. Að mati formanns Samtaka íslenskra handverksbrugghúsa (SÍHB) má grípa til ýmissa aðgerða til að létta undir í rekstri brugghúsanna sem skapa fjölda starfa um land allt.

„Staðan er einfaldlega þannig að félögin þurfa að vera mjög útsjónarsöm og því hafa margir hafið veitingarekstur samhliða bjórframleiðslunni svo dæmið gangi upp. Fjárfestingin í byrjun er umtalsverð og er það óraunhæft að ætla sér að keppa við stóru aðilana í verðum,“ segir Laufey Sif Lárusdóttir, formaður SÍHB og einn eigenda Ölverks í Hveragerði, um stöðuna sem smærri brugghús búa við.

Líkt og sjá má á meðfylgjandi töflu er ekki mikið sem má út af bregða í rekstri félaganna til að illa fari. Bestu afkomu ársins mátti sjá hjá Ölvisholti en þar spilaði stóra rullu eftirgjöf á 51 milljónar skuld. Í tilfelli Ægis var eigið fé neikvætt en 133 milljóna króna láni var breytt í hlutafé árið 2019.

„Þegar þú tekur allt saman, virðisaukaskatt, áfengisgjald, álagningu ÁTVR og skilagjaldið, þá er ekki mikið eftir sem rennur í vasa framleiðandans. Okkur reiknast svo til að fyrir hverjar 100 krónur af söluverði í Vínbúðunum, fái framleiðandinn um 25 krónur til sín. Það þarf að standa undir hráefnis-, umbúðaog launakostnaði,“ segir Laufey Sif.

„Viðskiptavinir okkar vita að með því að versla við okkur eru þeir að styðja við íslenska smáframleiðendur, íslenskan iðnað og aukna atvinnusköpun um land allt,“ segir Laufey Sif.

Um 200 störf án stuðnings

Innan raða SÍHB má finna á þriðja tug félaga sem starfa vítt og breitt um landið. Sem dæmi má nefna Beljanda á Breiðdalsvík, Austra á Egilsstöðum, Dokkuna á Ísafirði, Litla brugghúsið í Garði, Brothers Brewery í Vestmannaeyjum og Húsavík Öl. Talningin er að sjálfsögðu ekki tæmandi en hjá brugghúsunum starfa í heildina ríflega 200 manns. „Fyrir tíu árum þekktist hugtakið handverksbrugghús ekki en nú er fólk úti um allt land að opna slíkt í sinni heimabyggð, styðja við atvinnusköpun og búa til störf af hugsjón en ekki út af stuðningi frá ríkinu. Auðvitað eigum við að styðja þannig framtak í stað þess að leggja stein í götu þess,“ segir Laufey Sif.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .