Úrvalsvísitalan lækkaði um hálft prósent í 2,4 milljarða króna veltu á aðalmarkaði Kauphallarinnar í dag. Fjórtán félög aðalmarkaðarins voru rauð og sex græn í viðskiptum dagsins.
Mesta veltan var með hlutabréf Reita sem hækkuðu um 1,8% í 360 milljóna króna viðskiptum. Fasteignafélagið sendi frá sér jákvæða afkomuviðvörun í morgun. Gengi Reita stendur í 85,5 krónum á hlut, sem er engu að síður 4,4% lægra en í lok síðasta árs.
Iceland Seafood hækkaði mest af félögum aðalmarkaðarins eða um 4,2% en þó aðeins í 16 milljóna veltu. Gengi Icelandair hækkaði einnig um 1,8% og stendur nú í 1,78 krónum á hlut.
Síminn lækkaði um 3,7%, mest af félögum Kauphallarinnar, í 230 milljóna króna veltu. Gengi Símans stendur nú í 10,4 krónum á hlut og hefur ekki verið lægra síðan í nóvember. Sýn og Brim lækkuðu einnig um meira en 2% í dag.