Iðnaðarfyrirtækið Ferro Zink hagnaðist um 72 milljónir króna í fyrra, samanborið við 124 milljóna hagnað árið 2023. Rekstrartekjur jukust lítillega milli ára og námu 2,8 milljörðum króna. Hráefnis og vörunotkun nam ríflega 1,6 milljörðum króna, samanborið við tæplega 1,6 milljarða árið 2023. Áhrif af rekstri hlutdeildarfélaga voru jákvæð um 41 milljón, samanborið við 51 milljón árið 2023.

Í ársreikningi Ferro Zink segir að reksstur félagsins á árinu 2024 hafi verið undir væntingum. Var það m.a. vegna einskiptisliða sem tengjast lokun zinkframleiðslu í Hafnarfirði og flutningi hennar til Akureyrar. Þá sé til staðar óvissa varðandi aðgang að vörum og hráefnum í heiminum en jafnvægi komið á flutninga erlendis frá að mestu.

Ytri aðstæður hafi áfram verið krefjandi en vel tekist að aðlaga starfsemi félagsins að þeim. Ársverk voru 61 í fyrra en á árinu 2025 hafi félagið ráðist í hagræðingaraðgerðir sem ætlað er að skila sér jafnt og þétt eftir því sem líður á árið.

Eignir félagsins í árslok 2024 voru bókfærðar á 1.685 milljónir króna, samanborið við 1.179 milljónir árið áður, og eigið fé nam 600 milljónum um áramótin, samanborið við 558 milljónir í árslok 2023. Ferro Zink á 24,95% hlut í G. Skúlasyni vélaverkstæði ehf. og Rauðaþingi ehf. en bókfært verð eignarhlutanna nam 158,8 milljónum króna í árslok 2024.

Þá var greint frá því í byrjun júlí 2025 að Ferro Zink og Metal hefðu skrifað undir samrunasamning en með sameiningu fyrirtækjanna yrði til eitt þjónustufyrirtæki með starfsstöðvar á Akureyri og í Reykjavík og með yfir 70 starfsmenn. Metal velti rúmlega 1,9 milljörðum króna í fyrra og hagnaðist um 132 milljónir króna.

Ferro Zink er að fullu í eigu KEA en á árinu 2024 keypti KEA 30% hlut í félaginu af Jóni Dan Jóhanns­syni.