Novo Nor­disk hefur gripið til róttækra að­gerða til að skera niður kostnað eftir erfiða mánuði á markaði og mikla lækkun á hluta­bréfa­verði.

Nýi for­stjórinn, Mike Doustdar, sem tók við í ágúst hefur til­kynnt að þeir starfs­menn sem ráðið var til starfa og áttu að hefja störf 1. septem­ber muni ekki byrja.

Fyrir­tækið stað­festi í yfir­lýsingu að ráðningar­bannið, sem Doustdar til­kynnti strax í byrjun, næði einnig til nýráðinna starfs­manna í Dan­mörku sem þegar höfðu skrifað undir ráðningar­samninga. Þeir fá greidda eins mánaðar launa­upp­bót, ásamt upp­sagnar­fresti og stuðningi við nýtt starf.

Auk ráðningar­bannsins hafði Doustdar áður aflýst öllum bónus­greiðslum til starfs­manna fyrir fyrri hluta ársins 2025.

Hann hefur lýst yfir að hann ætli að fara í ítar­lega greiningu á rekstrinum til að finna fjár­magn til að fjár­festa í vaxtar­sviðum, einkum á sviði of­fitu­lyfja og sykursýkis­með­ferða.

Novo Nor­disk hefur um ára­bil verið eitt verðmætasta lyfja­fyrir­tæki Evrópu, knúið áfram af gríðar­legum vinsældum lyfjanna Wegovy og Ozempic.

Vinsældirnar leiddu þó til fram­leiðslu­erfið­leika og nú hefur ódýr sam­keppni í Bandaríkjunum valdið því að fyrir­tækið hefur tvívegis verið lækkað í verðmati á aðeins nokkrum mánuðum.

Mikil lækkun á hluta­bréfa­verði

Hluta­bréfa­verð Novo Nor­disk hefur fallið um nær 40 pró­sent frá áramótum og lækkaði um 23 pró­sent á einum degi í júlí.

Þegar hluta­bréfa­verð félagsins stóð í hæstu hæðum í júní 2024 var gengið 1.007,2 danskar krónur en það stendur í 364,5 krónum núna sem þýðir að markaðsvirði félagsins hefur helmingast á rúmu ári.

Fyrr­verandi for­stjórinn Lars Fruerga­ard Jørgen­sen steig til hliðar í maí, eftir að hafa setið í starfi frá 2017, vegna erfið­leika á mörkuðum og lækkunar á hluta­bréfa­verði frá miðju ári 2024.

Næstu mánuðir munu ráðast af því hvort nýr for­stjóri getur endur­heimt traust fjár­festa og stöðvað lækkandi gengi áður en fyrir­tækið heldur áfram að fjár­festa í vaxtar­sviðum sínum.