Novo Nordisk hefur gripið til róttækra aðgerða til að skera niður kostnað eftir erfiða mánuði á markaði og mikla lækkun á hlutabréfaverði.
Nýi forstjórinn, Mike Doustdar, sem tók við í ágúst hefur tilkynnt að þeir starfsmenn sem ráðið var til starfa og áttu að hefja störf 1. september muni ekki byrja.
Fyrirtækið staðfesti í yfirlýsingu að ráðningarbannið, sem Doustdar tilkynnti strax í byrjun, næði einnig til nýráðinna starfsmanna í Danmörku sem þegar höfðu skrifað undir ráðningarsamninga. Þeir fá greidda eins mánaðar launauppbót, ásamt uppsagnarfresti og stuðningi við nýtt starf.
Auk ráðningarbannsins hafði Doustdar áður aflýst öllum bónusgreiðslum til starfsmanna fyrir fyrri hluta ársins 2025.
Hann hefur lýst yfir að hann ætli að fara í ítarlega greiningu á rekstrinum til að finna fjármagn til að fjárfesta í vaxtarsviðum, einkum á sviði offitulyfja og sykursýkismeðferða.
Novo Nordisk hefur um árabil verið eitt verðmætasta lyfjafyrirtæki Evrópu, knúið áfram af gríðarlegum vinsældum lyfjanna Wegovy og Ozempic.
Vinsældirnar leiddu þó til framleiðsluerfiðleika og nú hefur ódýr samkeppni í Bandaríkjunum valdið því að fyrirtækið hefur tvívegis verið lækkað í verðmati á aðeins nokkrum mánuðum.
Mikil lækkun á hlutabréfaverði
Hlutabréfaverð Novo Nordisk hefur fallið um nær 40 prósent frá áramótum og lækkaði um 23 prósent á einum degi í júlí.
Þegar hlutabréfaverð félagsins stóð í hæstu hæðum í júní 2024 var gengið 1.007,2 danskar krónur en það stendur í 364,5 krónum núna sem þýðir að markaðsvirði félagsins hefur helmingast á rúmu ári.
Fyrrverandi forstjórinn Lars Fruergaard Jørgensen steig til hliðar í maí, eftir að hafa setið í starfi frá 2017, vegna erfiðleika á mörkuðum og lækkunar á hlutabréfaverði frá miðju ári 2024.
Næstu mánuðir munu ráðast af því hvort nýr forstjóri getur endurheimt traust fjárfesta og stöðvað lækkandi gengi áður en fyrirtækið heldur áfram að fjárfesta í vaxtarsviðum sínum.