„Það er búið að leggja mikla vinnu í að skoða þetta og það er alveg klárt mál að það eru mikil tækifæri í samruna,“ segir Jón Guðni Ómarsson bankastjóri Íslandsbanka um hugsanlegan samruna við Kviku banka eins og viðræður höfðu staðið yfir um frá því í febrúar þar til Kvika sleit þeim.

Ástæðan var yfirvofandi stjórnarkjör hjá Íslandsbanka, sem fram fór fyrir viku síðan, en við slitin tók stjórn Kviku fram að þar á bæ væri vilji til að hefja viðræður að nýju „ef forsendur skapast“.

Jón Guðni heldur spilunum þétt að sér um það hvort líklegt sé að þráðurinn verði tekinn upp að nýju en segir góðan takt hafa verið í viðræðunum.

„Stóra spurningin var hins vegar hvort samþykki fengist hjá samkeppnisyfirvöldum. Það er þá eitthvað sem þyrfti að skoða strax í upphafi.“

Sjálfur hafi hann og Birna Einarsdóttir fyrirrennari hans í starfi verið samstíga í viðræðunum, sem hann tók sjálfur virkan þátt í sem fjármálastjóri.

„Þetta er eitthvað sem okkur þótti rétt að láta reyna á. Það eru bara það mikil tækifæri í þessu fyrir hluthafa. Það á svo bara eftir að koma í ljós hvað ný stjórn vill gera.“

Nánar er rætt við Jón Guðna í Viðskiptablaðinu sem kom út í gærmorgun.