Breska ríkið er í fyrsta sinn í þrettán ár ekki meirihlutaeigandi í NatWest bankanum eftir að hafa komið honum til bjargar eftir fjármálahrunið árið 2008. Breska ríkið fer nú með 48,1% hlut eftir að hafa selt 2,5% eignarhlut fyrir 1,2 milljarða punda, eða sem nemur 205 milljörðum króna, í endurkaupum bankans.

Ríkisstjórn Gordon Brown keypti 57% hlut í NatWest, sem hét þá Royal Bank of Scotland (RBS), fyrir 37 milljarða punda árið 2008 en hæst fór eignarhluturinn upp í 84% árið 2009 eftir frekari fjárfestingu af hálfu ríkisins. Árið 2015 byrjaði ríkissjóður Bretlands að minnka hlut sinn í bankanum og búist er við að söluferlið muni halda áfram næstu árin.

Miðað við verðið í viðskiptunum, 220,5 penní á hlut, nemur virði eftirstandandi 48% hlutar breska ríkisins í NatWest 11,9 milljörðum punda. Í umfjöllun The Guardian er bent á að meðalkaupverð ríkisins árið 2008 hafi verið um 500 penní á hlut.

Breska ríkið hafði áður tilkynnt að til stæði að selja eftirstandandi hlut sinn í bankanum fyrir lok árs 2024 en frestaði þeim áformum vegna kórónuveirufaraldursins.

„Salan þýðir að ríkið er ekki lengur meirihlutaeigandi NatWest Group og því er um að ræða mikilvæg tímamót í áformum okkar um að skila bankanum aftur til einkageirans,“ er haft eftir John Glen, undirráðherra efnahagsmála í fjármálaráðuneytinu.