Rússneskar hersveitir gerðu eldflaugaárás á raftækjaverksmiðju í eigu bandaríska fyrirtækisins Flex í borginni Mukachevo í Zakarpattia í gær. Yfirvöld í borginni greindu frá þessu og hefur Bloomberg jafnframt staðfest árásina.
Um 15 manns særðust í árásinni en engar fregnir um dauðsföll hafa borist. Þetta er fyrsta árásin á bandarískt fyrirtæki í landinu frá því að Rússar réðust á skrifstofur Boeing í Kænugarði fyrr á þessu ári.
Andrii Sybiha, utanríkisráðherra Úkraínu, segir að eldflaugarnar hefðu hæft bandarískan raftækjaframleiðenda sem ollu alvarlegum skemmdum. „Hér var um algjöra borgaralega aðstöðu að ræða sem hafði ekkert að gera með varnarmál. Það var engin hernaðarleg rökfræði í árásinni, aðeins hryðjuverk gegn fólki, fyrirtækjum og eðlilegu lífi í landinu okkar.“
Volodymyr Zelenskyy forseti Úkraínu fordæmdi einnig árásina og lagði áherslu á að Rússar væru vísvitandi að miða á svæði sem studd væru af bandarískum fjárfestingum.
„Þeir notuðu stýriflaugar gegn bandarísku fyrirtæki í Zakarpattia. Þetta var venjuleg verksmiðja sem framleiddi daglegar vörur eins og kaffivélar. Það segir því margt um Rússa að þeir hafi engu að síður litið á þetta sem hernaðarskotmark.“