Særún Ósk Pálmadóttir hefur hafið störf sem ráðgjafi hjá KOM ráðgjöf. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá KOM.
Síðast var hún samskiptastjóri Haga eftir að hafa starfað sem samskiptaráðgjafi hjá Aton.JL á árunum 2016 til 2019. Þá starfaði hún einnig hjá hugbúnaðarfyrirtækinu Tempo sem sérfræðingur í samskiptum og sem verkefnastjóri hjá Háskólanum í Reykjavík.
Samhliða vinnu var Særún kynningarstjóri tónlistarhátíðarinnar Myrkir músíkdagar á árunum 2018 og 2019 og hefur einnig sinnt stundakennslu í krísusamskiptum og almannatengslum við Háskólann á Bifröst.
Særún er með B.Sc.-gráðu í viðskiptafræði frá Háskólanum í Reykjavík og M.Sc. í almannatengslum frá Háskólanum í Lundi í Svíþjóð og Háskólanum í Stirling í Skotlandi.
„Það er fengur í því að fá Særúnu í starfsmannahóp KOM, hún hefur mikla reynslu og þekkingu sem mun nýtast okkur og viðskiptavinum KOM mjög vel og verður mikill liðsstyrkur. Við leggjum mikið upp úr því hjá okkur að vinna í teymum fyrir viðskiptavini okkar og ný rödd og nýtt sjónarhorn er mikilvægt inn í þá vinnu," segir Friðjón R. Friðjónsson framkvæmdastjóri KOM, í tilkynningunni.