Flugfélagið Play flutti 23.677 farþega í mars sem er 20% aukning frá fyrri mánuði þegar farþegafjöldinn var 19.686. Sætanýting í mars var 66.9%, samanborið við 55,7% í febrúar.

Í tilkynningu til Kauphallarinnar segist Play hafa ráðið 45 flugmenn og ráðgerir að bæta við á annað hundrað flugliða fyrir sumarið. Þjálfun starfsfólksins hófst í febrúar og síðustu námskeiðin hefjast í maí.

„Félagið hefur væntingar um að sætanýting aukist á næstu mánuðum enda fyrirséð að tengiflug yfir Atlantshaf, sem hefst í mánuðinum, muni styrkja stöðuna til muna,“ segir í tilkynningunni.

Sjá einnig: Merki um gott ferðasumar

Fyrsta flug Play til Bandaríkjanna verður þann 20. apríl til Baltimore/Washington. Fyrsta flug félagsins til Boston er 10. maí og til New York þann 9. júní.

Birgir Jónsson, forstjóri Play:

„Eftir því sem sætanýtingin verður sífellt betri finnum við á okkur að nýr og spennandi kafli er að hefjast hjá Play. Bókanir hafa flætt vel á undanförnum mánuðum og við erum í heilbrigðum vexti frá vori og inn í sumarið. Það er gleðilegt að geta stigið varfærin en ákveðin skref fram á við með því að stækka flotann, fjölga starfsfólki og bæta við leiðum. Það er ljóst að við erum að færa út kvíarnar á nákvæmlega réttum tíma, einmitt þegar eftirspurnin er að jafna sig eftir faraldurinn. Fram undan eru ævintýralegir tímar. Nú einsetjum við okkur að ná öllum markmiðum okkar og tökum þátt í vextinum sem búast má við í alþjóðaflugi og ferðaþjónustu á komandi tímum.“