Hagkerfi Indónesíu dróst saman um 3,5% á þriðja ársfjórðungi 2020, samanborið við sama tímabil fyrra árs. Þetta er annar fjórðungurinn í röð þar sem hagkerfi landsins dregst saman, samdrátturinn mælist 5,3% á öðrum ársfjórðungi.

Ekki hefur samdráttur mælst tvö ársfjórðunga í röð síðan árið 1998, þegar fjármálakreppa í Asíu reið yfir. Indónesía er stærsta hagkerfið í Suðaustur-Asíu. Yfirvöld þarlendis gera ráð fyrir að um 3,5 milljónir manna missi vinnu sökum samdráttarins sem rekja má til kórónuveirufaraldursins. BBC greinir frá.

Landamæri Indónesíu eru lokuð um þessar mundir. Ein helsta stoð hagkerfisins er ferðaþjónusta og er samdrátturinn á þriðja ársfjórðungi meiri en hagfræðingar höfðu áður áætlað.