Samkvæmt fyrsta mati Hagstofunnar er áætlað að landsframleiðsla hafi dregist saman um 1,9% að raunvirði á öðrum ársfjórðungi 2025 miðað við sama tímabil fyrra árs. Fyrstu sex mánuði ársins er áætlað að landsframleiðslan hafi aukist um 0,3% að raunvirði.

Leiðrétt fyrir árstíðabundnum sveiflum er áætlað að landsframleiðsla hafi dregist saman um 0,7% að raunvirði samanborið við fyrsta ársfjórðung 2025.

Fram kemur að framlag utanríkisviðskipta vegi þyngst í samdrætti á öðrum ársfjórðungi en aukinn halli á vöru- og þjónustuviðskiptum samanborið við fyrra ár veldur því að framlag utanríkisviðskipta til hagvaxtar er neikvætt um 5,8% á öðrum ársfjórðungi.

„Aukin þjóðarútgjöld vega á móti samdrætti í utanríkisviðskiptum en fyrsta mat gerir ráð fyrir að fjármunamyndun hafi aukist um 8,3%, einkaneysla um 3,1% og samneysla um 0,3%, allt að raunvirði.“

Að teknu tilliti til birgðabreytinga er áætlað að þjóðarútgjöld á öðrum ársfjórðungi hafi aukist um 3,9% að raunvirði miðað við sama tímabil fyrra árs.

Áætlað er að vöru- og þjónustuviðskipti við útlönd hafi verið neikvæð um 73,4 milljarða króna á öðrum ársfjórðungi sem er töluvert meira halli en á sama ársfjórðungi síðasta árs þegar hallinn nam 22,9 milljörðum króna.