Velta jókst lítillega í flestum atvinnugreinum landsins í maí og júní 2025 samanborið við sömu mánuði árið 2024, samkvæmt frétt sem birtist á vef Hagstofunnar í morgun.
Af tólf stærstu greinum hagkerfisins jókst velta umfram hækkun verðlags í aðeins þremur en vísitala neysluverðs hækkaði um 4,0% á tímabilinu.
Samdráttur í tæknigreinum og framleiðslu málma
Samdráttur var í framleiðslu málma og tæknigreinum á tímabilinu. Þá var einnig lítilsháttar samdráttur í sjávarútvegi og einkennandi greinum ferðaþjónustu.
Velta í tækni- og hugverkaiðnaði (án lyfjaframleiðslu) var tæplega 101 milljarður króna í maí og júní sem var um 5% minna en á sama tíma árið 2024.
Samdráttur var í flestum greinum tæknigeirans þar sem velta dróst mest saman í starfsemi á sviði upplýsingaþjónustu (gagnavinnslu, hýsingu, o.fl.) eða um 57%. Þá minnkaði velta einnig um rúmlega 20% í framleiðslu á tölvu-, rafeinda- og optískum vörum.
Í þjónustustarfsemi á sviði upplýsingatækni var hins vegar jákvæður vöxtur en hann var þó aðeins rúmlega 1% þar sem velta í hugbúnaðargerð jókst um rúm 3%.
Velta í framleiðslu málma dróst saman um rúmlega 8% á tímabilinu. Heimsmarkaðsverð á áli var örlitlu lægra í maí og júní miðað við fyrra ár auk þess sem gengi krónunnar var töluvert sterkara. Hagstofan bendir þó á að útflutt magn jókst hins vegar um rúmlega 10%.
Vöxtur í bílasölu
Mest jókst velta í bílasölu og smásöluverslun. Velta í sölu, viðgerðum og viðhaldi á vélknúnum ökutækjum jókst um 16% og þar af var nærri 19% vöxtur í bílasölu.
Í smásöluverslun nam vöxturinn um 7% en þar af jókst velta um 8% hjá stórmörkuðum og matvöruverslunum og rúmlega 31% í lyfjaverslun. Aftur á móti var 1% samdráttur hjá byggingarvöruverslunum og tæplega 3% samdráttur hjá sérverslunum um fatnað og skó.