Sante ehf. hefur kært einkahlutafélagið Heinemann Travel Retail Ice ehf. til lögreglu vegna þess sem félagið telur ólögmæta smásölu á áfengi í tollfrjálsri verslun á Keflavíkurflugvelli.
Í tilkynningu Sante segir að samkvæmt íslenskum lögum hafi hið opinbera haft einkarétt á hefðbundinni smásölu á áfengi í gegnum Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins (ÁTVR) og áður Fríhöfnina ehf. í eigu Isavia.
Þessi einkaréttur sé skýrlega staðfestur í áfengislögum og lögum um ÁTVR.
Þrátt fyrir það hafi Heinemann gert samning við Isavia um rekstur smásölu á áfengi á Keflavíkurflugvelli án þess að slíka undanþágu sé að finna í lögum.
„Tollalög fjalla um rekstur tollfrjálsra verslana og hvaða vörur megi selja þar en fela ekki í sér undanþágu frá einkarétti hins opinbera til smásölu á áfengi,“ segir í tilkynningunni.
Sante gagnrýnir að lögum sé beitt með mismunandi hætti gagnvart aðilum. Í tilkynningunni er bent á að fyrirtæki sem reynt hafi að starfrækja netverslanir með áfengi hafi þurft að sæta rannsókn lögreglu og nú staðið frammi fyrir ákæru, á meðan Heinemann starfi áfram óáreitt.
„Þetta jafngildir því að stjórnvöld hafi í framkvæmd afnumið einokun hins opinbera á smásölu á áfengi, en aðeins fyrir einn einkaaðila – Heinemann. Með þessu er komið á tvöföldu réttarkerfi þar sem einn aðili fær undanþágu sem öðrum er meinuð,“ segir í yfirlýsingu Sante.
Í tilkynningunni er fullyrt að staðan sé sambærileg því ef einkaaðili í Reykjavík fengi að opna vínbúð og selja áfengi í krafti leyfis sem stangast á við lög, á meðan öðrum yrði tafarlaust gert að loka.
„Þetta er engu líkara en að einkaaðili í Reykjavík fengi að opna vínbúð og selja áfengi í krafti leyfis sem stangast á við lög – en öðrum væri umsvifalaust gert að loka. Enginn myndi sætta sig við slíkt misræmi, hvorki almenningur né aðrir atvinnurekendur. Sömu lög gilda á Keflavíkurflugvelli og í Reykjavík.”
Sante segir að félaginu hafi verið nauðugur sá kostur að kæra Heinemann til lögreglu. Að öðrum kosti ríki tvöfalt réttlæti þar sem sumir sæti refsingu en aðrir njóti undanþágu.
„Ef lögum er beitt harðar á suma en aðra, þá er réttarkerfið orðið að valdakerfi,“ segir að lokum í tilkynningunni, sem undirrituð er af Arnari Sigurðssyni og Elíasi Blöndal Guðjónssyni fyrir hönd Sante ehf.