Sante ehf. hefur kært einkahlutafélagið Heinemann Travel Retail Ice ehf. til lög­reglu vegna þess sem félagið telur ólög­mæta smásölu á áfengi í toll­frjálsri verslun á Kefla­víkur­flug­velli.

Í til­kynningu Sante segir að sam­kvæmt ís­lenskum lögum hafi hið opin­bera haft einkarétt á hefðbundinni smásölu á áfengi í gegnum Áfengis- og tóbaks­verslun ríkisins (ÁTVR) og áður Fríhöfnina ehf. í eigu Isavia.

Þessi einkaréttur sé skýr­lega stað­festur í áfengislögum og lögum um ÁTVR.

Þrátt fyrir það hafi Hein­emann gert samning við Isavia um rekstur smásölu á áfengi á Kefla­víkur­flug­velli án þess að slíka undanþágu sé að finna í lögum.

„Tolla­lög fjalla um rekstur toll­frjálsra verslana og hvaða vörur megi selja þar en fela ekki í sér undanþágu frá einkarétti hins opin­bera til smásölu á áfengi,“ segir í til­kynningunni.


Sante gagn­rýnir að lögum sé beitt með mis­munandi hætti gagn­vart aðilum. Í til­kynningunni er bent á að fyrir­tæki sem reynt hafi að starfrækja net­verslanir með áfengi hafi þurft að sæta rannsókn lög­reglu og nú staðið frammi fyrir ákæru, á meðan Hein­emann starfi áfram óáreitt.

„Þetta jafn­gildir því að stjórn­völd hafi í fram­kvæmd af­numið ein­okun hins opin­bera á smásölu á áfengi, en aðeins fyrir einn einka­aðila – Hein­emann. Með þessu er komið á tvöföldu réttar­kerfi þar sem einn aðili fær undanþágu sem öðrum er meinuð,“ segir í yfir­lýsingu Sante.

Í til­kynningunni er full­yrt að staðan sé sam­bæri­leg því ef einka­aðili í Reykja­vík fengi að opna vín­búð og selja áfengi í krafti leyfis sem stangast á við lög, á meðan öðrum yrði tafar­laust gert að loka.

„Þetta er engu líkara en að einka­aðili í Reykja­vík fengi að opna vín­búð og selja áfengi í krafti leyfis sem stangast á við lög – en öðrum væri um­svifa­laust gert að loka. Enginn myndi sætta sig við slíkt mis­ræmi, hvorki al­menningur né aðrir at­vinnu­rek­endur. Sömu lög gilda á Kefla­víkur­flug­velli og í Reykja­vík.”

Sante segir að félaginu hafi verið nauðugur sá kostur að kæra Hein­emann til lög­reglu. Að öðrum kosti ríki tvöfalt rétt­læti þar sem sumir sæti refsingu en aðrir njóti undanþágu.

„Ef lögum er beitt harðar á suma en aðra, þá er réttar­kerfið orðið að valda­kerfi,“ segir að lokum í til­kynningunni, sem undir­rituð er af Arnari Sigurðs­syni og Elíasi Blön­dal Guðjóns­syni fyrir hönd Sante ehf.