Seðlabanki Íslands lagði niður sex stöður á fjórum sviðum í sumar. Þetta kemur fram í svari Seðlabankans við fyrirspurn RÚV. Starfsmenn Seðlabanka Íslands eru í dag 307 talsins.

Umræddir starfsmenn störfuðu á sviði fjármálastöðugleika, sviði skrifstofu bankastjóra, sviði markaðsviðskipta og sviði gagna og umbóta.

Fram kemur að uppsagnirnar hafi komið til vegna breytinga á skipulagi og fyrirkomulagi innan sviða bankans sem tóku gildi 12. júní síðastliðinn.

„Með breytingunum er stefnt að því að skerpa á hlutverkum deilda bankans og samþætta áþekk verkefni með það að markmiði að auka skilvirkni,“ segir í svari bankans.

Seðlabanki tilkynnti í júní um breytingar á framkvæmdastjórn bankans. Sturla Pálsson tók við sem forstöðumaður skilavalds bankans, Haukur C. Benediktsson var settur framkvæmdastjóri markaðsviðskipta og Flóki Halldórsson var settur framkvæmdastjóri fjármálastöðugleika.