Jón Bjarki Bents­son, aðal­hag­fræðingur Ís­lands­banka, segir að á­kvörðun peninga­stefnu­nefndar um ó­breytta vexti, á­samt hlut­lausri fram­sýnni leið­sögn, benda til þess að nefndin horfi nokkuð stíft í bak­sýnis­spegilinn fremur en fram á veg þegar kemur að efna­hags­þróun og öðrum á­hrifa­þáttum.

Að mati greiningar­deildar Ís­lands­banka eykst hættan á því að peninga­stefnan ýki hag­sveifluna fremur en að draga úr henni á næstunni.

Greiningar­deildin spáði því að vextir yrðu lækkaðir um 0,25% en að mati Jóns Bjarka voru rök fyrir því að slík lækkun væri skyn­sam­leg.

„Enn meira á ó­vart kemur okkur þó sá tónn sem sleginn er í yfir­lýsingu peninga­stefnu­nefndar sem og á kynningar­fundi eftir vaxta­á­kvörðunina. Þar er enginn á­dráttur gefinn um að slökun á peninga­legu að­haldi sé lík­legri en frekari herðing á komandi fjórðungum,” skrifar Jón Bjarki á vef Ís­lands­banka.

Hann bendir á að fram­sýn leið­sögn peninga­stefnu­nefndarinnar hafi verið orð­rétt sú sama og í febrúar: „Mótun peninga­stefnunnar á næstunni mun sem fyrr ráðast af þróun efna­hags­um­svifa, verð­bólgu og verð­bólgu­væntinga.”

Jón Bjarki segir jafn­framt að peninga­stefnu­nefndin hefði gjarnan mátt gera ný­gerðum kjara­samningum hærra undir höfði en gert var.

„Þá kom okkur raunar nokkuð á ó­vart hversu litla vigt ný­gerðir kjara­samningar virðast hafa í á­kvarðana­töku peninga­stefnu­nefndar að þessu sinni. Þótt vissu­lega eigi eftir að semja við stóra hópa á vinnu­markaði og tals­verð hætta sé á launa­skriði næsta kastið eru samningarnir sjálfir að ýmsu leyti þeir hag­felldustu fyrir verð­bólgu­horfur sem komið hafa fram í all­langan tíma hér á landi.“