Jón Bjarki Bentsson, aðalhagfræðingur Íslandsbanka, segir að ákvörðun peningastefnunefndar um óbreytta vexti, ásamt hlutlausri framsýnni leiðsögn, benda til þess að nefndin horfi nokkuð stíft í baksýnisspegilinn fremur en fram á veg þegar kemur að efnahagsþróun og öðrum áhrifaþáttum.
Að mati greiningardeildar Íslandsbanka eykst hættan á því að peningastefnan ýki hagsveifluna fremur en að draga úr henni á næstunni.
Greiningardeildin spáði því að vextir yrðu lækkaðir um 0,25% en að mati Jóns Bjarka voru rök fyrir því að slík lækkun væri skynsamleg.
„Enn meira á óvart kemur okkur þó sá tónn sem sleginn er í yfirlýsingu peningastefnunefndar sem og á kynningarfundi eftir vaxtaákvörðunina. Þar er enginn ádráttur gefinn um að slökun á peningalegu aðhaldi sé líklegri en frekari herðing á komandi fjórðungum,” skrifar Jón Bjarki á vef Íslandsbanka.
Hann bendir á að framsýn leiðsögn peningastefnunefndarinnar hafi verið orðrétt sú sama og í febrúar: „Mótun peningastefnunnar á næstunni mun sem fyrr ráðast af þróun efnahagsumsvifa, verðbólgu og verðbólguvæntinga.”
Jón Bjarki segir jafnframt að peningastefnunefndin hefði gjarnan mátt gera nýgerðum kjarasamningum hærra undir höfði en gert var.
„Þá kom okkur raunar nokkuð á óvart hversu litla vigt nýgerðir kjarasamningar virðast hafa í ákvarðanatöku peningastefnunefndar að þessu sinni. Þótt vissulega eigi eftir að semja við stóra hópa á vinnumarkaði og talsverð hætta sé á launaskriði næsta kastið eru samningarnir sjálfir að ýmsu leyti þeir hagfelldustu fyrir verðbólguhorfur sem komið hafa fram í alllangan tíma hér á landi.“