Landsvirkjun hefur birt grein á vef sínum þar sem ríkisfyrirtækið fer yfir afstöðu sína til 1,4 milljarða króna sektar Samkeppniseftirlitsins (SKE), vegna verðlagningu á raforku í útboðum Landsnets á árunum 2017-2021.
„Með framgöngu sinni í þessu máli verndar Samkeppniseftirlitið milliliði, ekki neytendur. Neytendur hafa þvert á móti orðið fyrir tjóni með því að greiða hærri flutningsgjöld en annars hefði verið. Ekki hefur verið sýnt fram á annað tjón,“ segir í grein Harðar Arnarsonar, forstjóra Landsvirkjunar.
Landsvirkjun hyggst áfrýja ákvörðuninni til áfrýjunarnefndar samkeppnismála „og eftir atvikum fyrir dómstólum ef þurfa þykir“.
„Þar stendur hnífurinn í kúnni“
Landsvirkjun segist ósammála niðurstöðu SKE og segir að á því tímabili sem eftirlitsstofnunin rannsakaði hafi orðið töluverðar breytingar á raforkumarkaði.
„Ný sölufyrirtæki litu dagsins ljós sem ekki vinna raforku sjálf, heldur eru þau milliliðir milli orkuframleiðenda og endanotenda, s.s. heimila og smærri fyrirtækja. Landsvirkjun fagnaði innkomu þeirra og greiddi götu þessara nýju fyrirtækja eins og kostur var. Enda leiddi þessi aukna samkeppni til þess að raforkuverð til heimila lækkaði.“
Þessi sölufyrirtæki hafi keypt raforku af framleiðendum samkvæmt verðskrá, bætt sinni álagningu á og selt áfram til endanotenda.
„Sum þeirra hófu svo að taka þátt í útboðum fyrir flutningstöp Landsnets. Kvörtun Íslenskrar orkumiðlunar (nú N1) til Samkeppniseftirlitsins gengur út á að fyrirtækið hafi átt rétt á að kaupa orku af Landsvirkjun á föstu verði og selja áfram til Landsnets á hærra verði, sem milliliður. Þar stendur hnífurinn í kúnni.“
Landsnet þarf að tryggja sér orku upp á um 440 GWst á ári að vega upp á móti raforku sem tapast við flutninga, en almennt tapast rúm 2% við flutninga.
Lengi vel hafi Landsnet keypt orku í flutningstöpin með útboðum sem framleiðendur raforku buðu í. Landsvirkjun hafi litið svo á að þetta væri mikilvæg kerfisþjónusta sem Landsnet væri að kaupa á heildsölustigi. Þótt ekkert í lögum hafi skyldað orkuvinnslufyrirtækin til að selja Landsneti orku í töp hafi Landsvirkjun alltaf tekið orku frá og seldi ekki annað „enda litum við á það sem samfélagslega skyldu til að tryggja öryggi raforkukerfisins“.
Hörður segir að markaður fyrir flutningstöp hafi aldrei verið skilgreindur hérlendis. SKE hafi á endanum komist að þeirri niðurstöðu að hann væri á smásölustigi og þar með hafi viðskiptavinir Landsvikjunar, sölufyrirtækin, átt að keppa jafnfætis við orkuframleiðslufyrirtækin í útboðum Landsnets. Þess vegna hafi Landsvirkjun ekki verið heimilt að bjóða verð undir því heildsöluverði sem í boði var á viðskiptavef fyrirtækisins – þrátt fyrir að önnur framleiðslufyrirtæki hafi gert það.
„Landsvirkjun taldi hins vegar – og telur enn – að Landsnet sé virkur aðili á markaði á heildsölustigi en ekki einungis notandi raforku, enda starfar Landsnet á jöfnunarorkumarkaði, líkt og öll önnur fyrirtæki sem hafa leyfi til raforkuviðskipta.
Þetta byggjum við ekki bara á einhverri tilfinningu eða hefð, heldur lögum og skilmálum Landsnets. Síðasta áratuginn höfum við notið ráðgjafar margra, öflugra sérfræðinga í samkeppnisrétti, einmitt til þess að vanda til verka og fóta okkur sem best í óljósu lagaumhverfi raforkumarkaða sem ekki eru skýrt skilgreindir.“

Hörður segir að málið verði líklega best útskýrt með sambærilegu dæmi.
„Ef Reykjavíkurborg fer í útboð á mjólkurvörum og Mjólkursamsalan tekur þátt í því, þá gæti Bónus kvartað og krafist þess að MS bjóði ekki undir því verði sem Bónus kaupir á af þeim. Verslunin eigi rétt á því samkvæmt samkeppnislögum að kaupa mjólkurvörur af MS á föstu heildsöluverði og bjóða borginni hærra verð fyrir mjólkurvörur.“
Markaðurinn leyst vandamálið sjálfur
Hann segir dæmið byggja á þeim (mis)skilningi að samkeppnislögum sé ætlað að vernda milliliði sem áframselji vöru sem þeir framleiða ekki sjálfir, með álagningu, „þannig að kaupandinn greiði hærra verð en ella“.
„Í tilfelli flutningstapanna er kaupandinn raforkunotendur í landinu; heimili og fyrirtæki sem borga brúsann; almenningur.
Það er kannski kaldhæðni örlaganna að núna er markaðurinn búinn að leysa vandamálið og skilgreina sig sjálfur, án þess að umgjörð eða lögum hafi verið breytt. Landsnet kaupir alla þá orku sem þarf í flutningstöp í gegnum markaðstorg raforku á heildsölustigi, Vonarskarð og Elmu. Sem hlýtur að teljast sterk vísbending um að þeir sérfræðingar í samkeppnisrétti, sem við höfum ráðfært okkur við undanfarin ár, hafi metið markaðinn rétt.“