Aðeins sex dagar voru veittir, þar af tveir sem hittu á helgi, af hálfu fjármála- og efnahagsráðuneytisins til umsagnar um nýja frádráttarreglugerð. Frestur til umsagna rennur út á morgun.
Fullt nafn reglugerðarinnar er reglugerð um frádrátt frá tekjum af atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi en henni er ætlað að leysa af hólmi samnefnda reglugerð sem verið hefur í reglugerðasafninu frá árinu 1994. Reglurnar kveða á um hvað má draga frá tekjum af atvinnustarfsemi áður en til skattlagningar kemur.
Samanburður á eldri reglugerðinni og reglugerðardrögunum leiðir í ljós að breytingarnar snúast að meginstefnu að nýrri löggjöf um almannaheillaskrá, það er frádráttar frá tekjum vegna styrkja til samstaka sem vinna að menningarmálum eða almannaheill. Breytingar á lögum þar um, meðal annars hvað varðar svokallaða almannaheillaskrá sem félögum ber að skrá sig á til að til skattfrádráttar geti komið, voru samþykkt á nýafstöðnu þingi.
Önnur ákvæði eldri reglugerðarinnar eru að mestu óbreytt en þó má finna stöku nýtt orð í reglugerðardrögunum. Í einhverjum tilfellum er þar aðeins á ferð tilvísanir til breyttra laga og uppfærslur í samræmi við framkvæmd yfirskattanefndar.
Reglugerðardrögin voru kynnt til umsagnar síðastliðinn föstudag en frestur til umsagna rennur út á morgun. Tvær umsagnir hafa borist. Önnur frá Lofslagsskrá Íslands ehf. en hin frá Samtökum verslunar og þjónustu. Í þeirri síðarnefndu er bent á að fresturinn sé afar knappur „og þá ekki síst þegar umfang reglugerðardraganna er haft í huga.“ Vanalega er frestur til umsagna tvær vikur og ef um frumvörp er að ræða gefst aftur kostur til umsagna við þinglega meðferð. Sú er ekki raunin með reglugerðir.
Reglugerðardrögin má kynna sér með því að smella hér .