Hlutabréf Síldarvinnslunnar hækkuðu mest af félögum Kauphallarinnar, eða um eitt prósent í 437 milljóna veltu í dag. Gengi Síldarvinnslunnar hefur aldrei verið hærra og stendur nú í 105 krónum á hlut, 75% hærra en í frumútboði félagsins í maí 2021.

Iceland Seafood International hækkaði næst mest eða um 0,8% í 413 milljóna veltu. Gengi félagsins fór niður í 12 krónur á föstudaginn síðasta og hafði þá ekki verið lægra síðan í lok árs 2020. Hlutabréfaverð Iceland Seafood stendur nú í 12,1 krónu á hlut eftir tæplega 18% lækkun í ár.

Úrvalsvísitalan féll um 0,6% í dag. Marel lækkaði um 0,5% í 350 milljóna viðskiptum og er gengi félagsins nú komið í 738 krónur. Þá féll hlutabréfaverð bankanna þriggja í Kauphöllinni í dag. Hlutabréfaverð Arion og Kvika lækkaði um 1,7%-1,9% en þó í tiltölulega lítilli veltu. Gengi Íslandsbanka féll lítillega í 688 milljóna viðskiptum og stendur nú í 127,8 krónum.