Síminn segir Heiðar Guðjónsson forstjóra Sýnar fara með rangt mál í viðtali í Viðskiptablaðinu í dag þegar hann ræðir um aðganga að „svörtum ljósleiðara." Mörg fyrirtæki fái aðgang að svörtum ljósleiðara og Síminn vilji ekki fá endurgjaldslausan aðgang að ljósleiðurum Gagnaveitunnar.
Yfirlýsingu Símans í heild sinni má lesa hér að neðan:
„Í viðtali við Viðskiptablaðið í dag fer forstjóri Sýnar rangt með lykilatriði þar sem fjallað er um aðgang að svokölluðum svörtum ljósleiðara. Á þetta bæði við um þau atriði sem snúa að tæknilegum atriðum sem og möguleg viðskipti Símans við Gagnaveitu Reykjavíkur. Eins og þeir vita sem hafa þekkingu á tæknihliðinni þá felst aðgangur að svörtum ljósleiðara í samnýtingu margra fjarskiptafyrirtækja á þessum innviðum. Í Stokkhólmi nota til dæmis yfir 100 fjarskiptafyrirtæki svartan ljósleiðara Stokab, sem er gagnaveitufyrirtæki í eigu sænsku höfuðborgarinnar. Þá er alrangt að Síminn vilji „endurgjaldslausan aðgang að kerfi Gagnaveitunnar“. Eins og áður hefur komið fram, meðal annars í Viðskiptablaðinu myndu þessi mögulegu viðskipti við Símann færa Gagnaveitunni hundruð milljóna króna á ári í tekjur aukalega.“