Sjö stærstu fjárfestingafélögin á íslenskum hlutabréfamarkaði hafa hagnast um meira en 150 milljarða króna á hækkun hlutabréfaverðs í Kauphöllinni á árinu. Bréf félaganna eru samanlagt um 440 milljarða króna virði sem er um 18% af heildarmarkaðsvirði Kauphallarinnar. Hlutabréfaverð hefur hækkað umtalsvert í kórónuveirukreppunni, bæði hér á landi og erlendis m.a. vegna stýrivaxtalækkana og uppsafnaðs sparnaðar.

Úrvalsvísitala Kauphallar Íslands hefur hækkað um 31% það sem af er þessu ári og um 58% frá upphafi árs 2020. Samanlagt markaðsvirði félaganna í Kauphöllinni nemur nú um 2.500 milljörðum króna og hefur ekki verið hærra frá hruni. Alls hefur markaðsvirði félaganna hækkað um 700 milljarða í ár ef með er talin hækkun á gengi Íslandsbanka, Síldarvinnslunnar og Play sem skráð voru á markað í sumar.

Stærstur hluti af hækkuninni rennur til íslenskra lífeyrisþega en lífeyrissjóðirnir eiga um 40% af skráðum hlutabréfum hér á landi. Þá eiga fjármálafyrirtæki, verðbréfa- og fjárfestingarsjóðir um 27%, önnur fyrirtæki um 9% og einstaklingar um 5% samkvæmt ritinu Fjármálastöðugleiki sem Seðlabankinn gaf út í september.

Ítarlega er fjallað um stærstu fjárfestana á íslenskum hlutabréfamarkaði í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .