Rannsókn á embættis Héraðssaksóknara á Skeljungsmálinu svokallaða lauk fyrir áramót. Ólafur Þór Hauksson héraðssaksóknari segir í samtali við Viðskiptablaðið að málið sé í ákærumeðferð og ekki liggi fyrir hvort ákært verði eður ei.

Spurður hvort það styttist í ákvörðun svarar Ólafur Þór:  „Nei, það er þónokkuð í þetta ennþá. Ég þori ekki að nefna neinar tímasetningar. Þetta verður bara að taka þann tíma sem þetta tekur."

Skeljungsmálið snýst um viðskipti með olíufélögin Skeljung og P/f Magn á árunum 2008 til 2013. Hefur rannsóknin meðal annars snúist um meint umboðs- og skilasvik, möguleg mútubrot sem og mögulegt brot á lögum um peningaþvætti.

Sumarið 2020 greindi Viðskiptablaðið frá því að fjölgaði hefði í hópi þeirra sem hefðu réttarstöðu grunaðs úr fimm í sex. Ólafur Þór segir að hópurinn telji enn sex manns, ekki hafa fjölgað í honum.

Fjölmiðlar hafa greint frá nöfnum fimm einstaklinga, sem fengu réttarstöðu grunaðs við rannsókn málsins, en það eru þau Svanhildur Nanna Vigfúsdóttir, Guðmundur Örn Þórðarson, Einar Örn Ólafsson, Halla Sigrún Hjartardóttir og Kári Þór Guðjónsson. Ekki hefur fengist uppgefið hver sá sjötti í hópnum er.

Viðskiptin með Skeljung

Rannsókn málsins lýtur að sölu Glitnis á ríflega helmingshlut í Skeljungi í ágúst 2008 til BG Partners félags í eigu Birgis Bieltvedt auk Svanhildar Nönnu og Guðmundar Arnar. Greitt var fyrir hlutinn að hluta með lánsfé frá Glitni. Hluturinn var síðar meir færður í Skel Investments. Vorið 2009 var Einar Örn Ólafsson ráðinn forstjóri Skeljungs en hann hafði komið að söluferli félagsins sem starfsmaður fyrirtækjaráðgjafar Glitnis. Í september 2009 setti Íslandsbanki afganginn af hlutnum á sölu, enda bras að hafa áhrif á félagið með 49 prósent hlut, og í byrjun næsta árs keypti félag í eigu Svanhildar Nönnu, Guðmundar og Birgis hlutinn. Verðið á hlut var lægra en í fyrri viðskiptunum. Birgir seldi hlut sinn árið 2011.

Um svipað leyti og Einar Örn settist í forstjórastól Skeljungs keypti eignarhaldsfélagið Hedda, í eigu Svanhildar Nönnu og Guðmundar, færeyska olíufélagið P/f Magn út úr þrotabúi Fons. Kaupverðið var um 300 milljónir króna. Um tveimur árum síðar, það er árið 2011, keyptu Halla Sigrún Hjartardóttir, fyrrnefndur Einar Örn og Kári Þór 66 prósent hlut í Heddu. Þeim hlut skiptu þau bróðurlega á milli sín en hvert og eitt þeirra greiddi 24 milljónir króna fyrir hlutinn. Öll þrjú höfðu starfað í fyrirtækjaráðgjöf Glitnis þegar Svanhildur Nanna og Guðmundur Örn  eignuðust Skeljung. Ekki hefur fengist á hreint hví þeim bauðst að kaupa hlutinn á þeim kjörum.

Vorið 2013 var greint frá því að Skeljungur væri til sölu og hið sama gilti um P/f Magn. Undir lok ársins voru félögin tvö seld til sjóðs í stýringu hjá Stefni. Samanlagt kaupverð var í kringum átta milljarðar króna sem skiptist svo til til helminga milli félaganna tveggja. Í söluferlinu vaknaði grunur meðal þeirra sem fengu aðgang að gagnaherbergjum um að við söluna á Skeljungi hefði verið samið við þremenningana í fyrirtækjaráðgjöfinni að þau myndu eignast hlut í færeyska olíufélaginu. Söluverð þess hluta er var í þeirra eigu var um 2,6 milljarðar króna. Hagnaður hvers og eins þeirra var því ríflega 830 milljónir króna.
Kært árið 2014

Í árslok 2013 tók Íslandsbanki yfir Skel Investments á grunni þeirra veða sem bankinn hafði í eigum félagsins. Í byrjun næsta árs var félagið sett í þrot og réðst skiptastjóri þrotabúsins í rannsókn á málum er lutu að starfsemi þess fyrir gjaldþrot. Sú rannsókn leiddi til kæru til embættis Héraðssaksóknara sem send var af bankanum. Taldi bankinn meðal annars að eigendur Skel Investments, þau Svanhildur Nanna og Guðmundur Örn, hefðu þynnt út eignarhlut félagsins í Skeljungi með þeim afleiðingum að bankinn hefði orðið af hátt í milljarði króna.

Málið hefur verið til meðferðar hjá embætti Héraðssaksóknara frá árinu 2016. Sumarið 2018 dró til tíðinda þegar greint var frá því að ráðist hefði verið húsleitir og þau Svanhildur Nanna og Guðmundur Örn handtekin vegna málsins. Þeim var sleppt samdægurs.