Á örfáum árum hefur kaup­auka­kerfi for­stjóra fyrir­tækja í dönsku C25-vísitölunni tekið veru­legum breytingum.

Sam­kvæmt nýrri skýrslu Center for Stra­tegic CSRD, sem Børsen greinir frá, var það áður fyrr nánast sjálf­gefið að svo­kallaðir ábyrgðar­bónusar (ESG-bónusar) væru greiddir að fullu.

Stjórn­endur þurfa nú að upp­fylla mun skýrari og metnaðar­fyllri kröfur.

Árið 2023 greiddu 19 af 21 fyrir­tæki sem tengdu kaup­auka­greiðslur við ESG-mark­mið fullan bónus til æðstu stjórn­enda sinna. Í fyrra, 2024, hafði sú tala hins vegar lækkað í 13 fyrir­tæki.

„Ástæðan er sú að mark­miðin hafa orðið mun skýrari og metnaðar­fyllri. Það er ekki lengur jafn auðvelt að ná fullum árangri,“ segir í skýrslunni, sem kallar þessa þróun „þroska­ferli“.

Sér­fræðingar benda á að með til­komu CSRD-til­skipunar ESB um sjálf­bærniskýrslu­gerð hafi fyrir­tæki þurft að setja mun mælan­legri mark­mið.

Dæmi um ný viðmið eru ár­legur 15 pró­senta sam­dráttur í losun gróður­húsa­loft­tegunda eða ákveðin kynja­hlut­föll í stjórn­endastöðum.

Rannsóknin sýnir einnig að þrátt fyrir að nánast öll C25-fyrir­tækin hafi tekið upp ESG-mark­mið í kaup­auka­kerfin sín eru enn fá fyrir­tæki utan þessa hóps sem gera slíkt hið sama.

Aðeins 14 pró­sent stjórn­enda í stærri könnun með yfir þúsund þátt­tak­endum sögðu að kaup­auki þeirra væri að hluta háður árangri í sjálf­bærni­mark­miðum.

Bodil Nor­dest­ga­ard Is­miris, for­stjóri sam­takanna Leder­ne, segir að þetta sýni að fyrir­tækin séu enn að læra.

„Við sjáum alveg svo­kölluð trick­le-down áhrif. Stærstu fyrir­tækin setja kröfur sem smærri fyrir­tækin þurfa svo að fylgja,“ segir hún.

Al­gengustu mark­miðin sem stjórn­endur eru metnir eftir snúa að fjöl­breytni í stjórn­enda­t­eymi og sam­drætti í losun CO₂.

Í stærri hópi stjórn­enda utan C25 eru einnig þættir eins og starfsánægja og ánægja við­skipta­vina meðal mikilvægra mæli­kvarða þegar ESG-mark­mið koma til greina.

Christina Kjær, rannsóknar­stjóri hjá Business Think Tank, bendir á að mörg fyrir­tæki noti ESG-bónusa til að senda jákvæð skila­boð út á við:

„Það getur verið gott – en það má ekki verða að sýndar­mennsku þar sem bónusinn er greiddur án þess að raun­veru­legar fram­farir eigi sér stað.“

Jan C. Ol­sen, for­stjóri EY í Dan­mörku, segir að lykil­at­riði sé að mark­miðin séu ekki aðeins mælan­leg heldur líka tengd þeim þáttum sem stjórn­endur hafi raun­veru­leg áhrif á:

„Ef þú hefur lítil sem engin áhrif á kol­efnis­spor fyrir­tækisins en getur haft mikil áhrif á starfsánægju í þinni deild, þá er það sem þú átt að vera metinn eftir,“ segir hann.