Í Viðskiptablaði vikunnar var greint frá kaupum íslenska tæknifyrirtækisins Leikbreytis ehf. þýska fyrirtækinu Passcreator GmBH sem sérhæfir sig í rafrænum kortalausnum fyrir Apple og Google Wallet.

Velta Leikbreytis jókst um meira en 60% í fyrra en Yngvi Tómasson, forstjóri og stofnandi Leikbreytis, segir félagið margfalda umsvif sín með yfirtökunni og stefnt sé að hröðum vexti á næstunni.

„Við erum frekar stórhuga og stefnum á að vaxa hratt á næstu misserum með aukinni sölu og nýta einstakan skalanleika sem við höfum. Frá upphafi höfum við útvistað hugbúnaðarþróun með eftirtektaverðum árangri og lagt áherslu á viðskiptamiðaða og söludrifna nálgun í rekstri okkar,“ segir Yngvi.

„Það eru einnig fleiri tækifæri til ytri vaxtar með því að taka yfir fleiri félög. Eftir að kaupin á Passcreator spurðust út þá hafa ýmis önnur tækifæri komið inn á borð hjá okkur.“

Yngvi og Pétur Þór Halldórsson, forstjóri S4S, eru stærstu eigendur Leikbreytis ásamt Tómas Ottó Hansson, stjórnarformanni Leikbreytis. Við kaupin á Passcreator bætist David Sporer stofnandi Passcreator einnig við í hluthafahópinn. Hamrar Capital Partners hafa verið Leikbreytir innan handa.

Leikbreytir, sem hóf rekstur árið 2019, hefur undanfarin ár sérhæft sig í að sníða heildarlausnina „Gift to Wallet“ í kringum rafræn gjafa- , viðskiptamanna- og vildarkort. Lausnin gerir þjónustuaðilum kleift að gefa út slík kort bæði á hefðbundinn hátt á prenti og í Apple og Google Wallet. Með kortunum er hægt að greiða fyrir vörur í verslun þar sem kerfið er samþáttað helstu afgreiðslukerfum og vefverslunarkerfum.

Fréttin er hluti af lengri umfjöllun um Leikbreyti og kaupin á Passcreator í Viðskiptablaði vikunnar.