Kristín Unnur Mathiesen hefur verið ráðin sem miðlari hjá markaðsviðskiptum Fossa markaða, en hún mun bera ábyrgð á samskiptum við alþjóðlega viðskiptavini (e. Head of Global Sales). Kristín Unnur hefur fimm ára reynslu af alþjóðlegum fjármálamörkuðum, en áður starfaði hún sem fulltrúi á nýmarkaðssviði hjá fjárfestingabankanum JP Morgan í London.

„Nýja starfið er alveg sniðið að minni reynslu en í mínu fyrra starfi var ég að selja vogunarsjóðum fjármálaafurðir í nýmarkaðsríkjum. Ég var meðal annars að selja skuldabréf, gjaldeyrisreikninga og aðrar flóknar fjármálaafurðir. Þá var ég í miklum samskiptum við fjárfesta í London, Bandaríkjunum og Singapúr," segir Kristín Unnur. Hún segir reynsluna úr bankanum munu nýtast vel í nýja starfinu og hlakkar mikið til að kynna sér betur tækifærin á íslenska markaðnum í smáatriðum.

Hún vissi alltaf að hana langaði að flytja aftur heim til Íslands þótt það hafi ekki endilega verið á dagskránni alveg strax. Eftir fimm góð ár hjá bankanum hafi þetta verið spurning um hvernig hún sæi ferilinn sinn þróast til langs tíma.

„Ég gat ekki hafnað tækifæri til að koma heim og starfa hjá Fossum mörkuðum sem eru í miklu vaxtaferli og að leggja mikla áherslu á þessa hlið starfseminnar. Ég skorast ekki undan áskorunum - þetta er spennandi skref."

Kristín Unnur flutti með fjölskyldunni til Rómar þegar hún var 14 ára gömul. Hún gekk í skóla þar en flutti síðar til London þar sem hún lauk grunnnámi í viðskiptafræði við King's College. Nú er öll fjölskyldan flutt aftur heim til Íslands nema yngsta systir hennar sem er að læra lögfræði í London.

„Ég byrjaði í háskóla langt á undan jafnöldrum mínum á Íslandi og vildi læra eitthvað nytsamlegt. Hins vegar vissi ég ekki nákvæmlega hvað mig langaði að gera í framtíðinni og valdi því nám sem var nokkuð opið og bauð upp á þann möguleika að ég hefði mikið val sjálf um hvernig gráðan yrði byggð upp."

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .