Skortstöður með hlutabréf Alvotech jukust um 78% á fyrstu tveimur vikum ágústmánaðar og náðu hæstu hæðum í mánuðinum samkvæmt nýbirtum tölum Nasdaq.

Fjöldi skortseldra bréfa Alvotech var um 1,97 milljónir hluta að nafnvirði þann 15. ágúst síðastliðinn, samanborið við 1,11 milljónir hluta að nafnvirði þann 31. júlí. Fjöldinn hafði áður farið hæst upp í 1,78 milljónir hluta í lok júní sl.

Alvotech birti uppgjör fyrir annan ársfjórðung eftir lokun markaða þann 13. ágúst síðastliðinn. Heildartekjur líftæknilyfjafyrirtækisins námu 306 milljónum dala á fyrri árshelmingi og jukust um 30% milli ára.

Tekjur félagsins voru talsvert yfir spám greinenda en 19% EBITDA-framlegð félagsins á öðrum fjórðungi var hins vegar þó nokkuð undir spám greinenda sem höfðu gert ráð fyrir að hlutfallið yrði í kringum 25%, samkvæmt umfjöllun Innherja.

Heildarvirði skortstöðunnar þann 15. ágúst nam ríflega 2 milljörðum króna. Miðað við heildarfjölda skortseldra hlutabréfa Alvotech um miðjan ágústmánuð hefði það tekið fjárfesta samtals 4,5 daga til að loka stöðum sínum, út frá svokölluðum „Days to Cover“ mælikvarða.

Dagleg velta með hlutabréf Alvotech í fyrri hluta ágústmánaðar var meiri en hún hefur eða að jafnaði um 435 þúsund hlutir á dag, samanborið við ríflega 300 þúsund í júlí og 200 þúsund í júní.

Hlutabréfaverð Alvotech hefur fallið um 8,4% frá birtingu uppgjörsins og stendur í 998 krónum á hlut þegar fréttin er skrifuð. Gengi hlutabréfa Alvotech er um 24% undir 1.320,8 krónu útgáfuverðinu í 10 milljarða króna hlutafjáraukningu líftæknifyrirtækisins í byrjun júní. Alls hefur gengi Alvotech fallið um 46% í ár.