Fjár­mála- og efna­hags­ráðu­neytið segir að sölu­and­virði hluta í Ís­lands­banka hafi að mestu leyti farið í greiðslu á gjald­daga skulda­bréfa­flokksins RIKB 25 0612 þann 12. júní síðastliðinn.

„Nam greiðsla höfuðstóls og vaxta yfir 70 ma.kr. sem komu ofan í ár­stíðar­sveifluna. Því má segja að sölu­and­virði hluta í bankanum hafi að mestu leyti farið í greiðslu gjald­dagans sem jafn­gildir skuldalækkun,“ segir í bréfi fjár­málaráðu­neytisins til Viðskiptablaðsins.

Við­skipta­blaðið hélt því fram í vikunni að ríkið hefði ekki enn nýtt ágóðann í skammtíma­skuldir en það vakti at­hygli skulda­bréfa­fjár­festa að um 36 milljarða króna ágúst­víxill ríkisins, sem var á gjald­daga, var svo gott sem endur­fjár­magnaður að fullu í út­boði í mánuðinum.

Vaxta­kjör víxlanna í út­boðinu voru rúm­lega 7,6%, sem undir­strikar að skammtíma­fjár­mögnun ríkis­sjóðs er áfram dýr.

Skulda­bréfa­flokkurinn sem var á gjald­daga í júní og ríkið greiddi upp, RIKB 25 0612, var gefinn út árið 2009.

Rétt er að taka fram að ríkið hefði alltaf þurft að greiða bréfið á gjald­daga hvort sem eignar­hlutur í Ís­lands­banka hefði verið seldur eður ei.

Ríkis­sjóður hefur lengi verið gagn­rýndur fyrir að fjár­magna sig mikið á stuttum ríkis­víxlum en með því er verið að viðhalda háu vaxta­stigi á stuttum skulda­bréfum og festa í sessi kostnað sem speglast út í aðra skammtíma­vaxta­fjár­mögnun á markaði.

Víxlar eru þó lykil­tæki í lausa­fjár­stjórnun og skapa sveigjan­leika til að bregðast hratt við þegar markaðsaðstæður eða vaxta­stig breytast.

Sér­fræðingar sem Við­skipta­blaðið leitaði til í vikunni töldu að það hefði verið til­valið tækifæri til að nýta fjár­magnið sem fékkst úr Ís­lands­bankasölunni í maí til minnka ríkis­víxla­stabbann núna í ágúst, sem stendur í um 130 milljörðum króna.

Fjár­málaráðu­neytið segir að ný­leg sala á hlutum ríkis­sjóðs í Ís­lands­banka hafi verið inni­falin í fjár­lögum, fjár­málaáætlun og áætlunum um fjár­mögnun ríkis­sjóðs á árinu.

„Ríkis­víxlar eru fyrst og fremst notaðir til þess að jafna ár­stíðar­sveiflur og aðrar sveiflur í sjóðstöðu innan árs. Undir­liggjandi ár­stíðar­sveifla (þ.e. án lána­hreyfinga) í sjóðstöðu ríkis­sjóðs hefur undan­farin ár náð lág­marki á fyrri helmingi júlí sem yfir­leitt hefur leitt til hækkunar víxlastöðu yfir sumartímann,“ segir í bréfi FMR til Viðskiptablaðsins.

Þá bendir fjár­málaráðu­neytið á að víxlastaðan hafi lækkað um tæp­lega 70 milljarða síðastliðið ár en sem fyrr segir fór salan á eftir­standandi hlut ríkisins í Ís­lands­banka fram í maí síðastliðnum.

Í júlí í fyrra stóð ríkivíxlastabbinn í um 200 milljörðum króna.