Fjármála- og efnahagsráðuneytið segir að söluandvirði hluta í Íslandsbanka hafi að mestu leyti farið í greiðslu á gjalddaga skuldabréfaflokksins RIKB 25 0612 þann 12. júní síðastliðinn.
„Nam greiðsla höfuðstóls og vaxta yfir 70 ma.kr. sem komu ofan í árstíðarsveifluna. Því má segja að söluandvirði hluta í bankanum hafi að mestu leyti farið í greiðslu gjalddagans sem jafngildir skuldalækkun,“ segir í bréfi fjármálaráðuneytisins til Viðskiptablaðsins.
Viðskiptablaðið hélt því fram í vikunni að ríkið hefði ekki enn nýtt ágóðann í skammtímaskuldir en það vakti athygli skuldabréfafjárfesta að um 36 milljarða króna ágústvíxill ríkisins, sem var á gjalddaga, var svo gott sem endurfjármagnaður að fullu í útboði í mánuðinum.
Vaxtakjör víxlanna í útboðinu voru rúmlega 7,6%, sem undirstrikar að skammtímafjármögnun ríkissjóðs er áfram dýr.
Skuldabréfaflokkurinn sem var á gjalddaga í júní og ríkið greiddi upp, RIKB 25 0612, var gefinn út árið 2009.
Rétt er að taka fram að ríkið hefði alltaf þurft að greiða bréfið á gjalddaga hvort sem eignarhlutur í Íslandsbanka hefði verið seldur eður ei.
Ríkissjóður hefur lengi verið gagnrýndur fyrir að fjármagna sig mikið á stuttum ríkisvíxlum en með því er verið að viðhalda háu vaxtastigi á stuttum skuldabréfum og festa í sessi kostnað sem speglast út í aðra skammtímavaxtafjármögnun á markaði.
Víxlar eru þó lykiltæki í lausafjárstjórnun og skapa sveigjanleika til að bregðast hratt við þegar markaðsaðstæður eða vaxtastig breytast.
Sérfræðingar sem Viðskiptablaðið leitaði til í vikunni töldu að það hefði verið tilvalið tækifæri til að nýta fjármagnið sem fékkst úr Íslandsbankasölunni í maí til minnka ríkisvíxlastabbann núna í ágúst, sem stendur í um 130 milljörðum króna.
Fjármálaráðuneytið segir að nýleg sala á hlutum ríkissjóðs í Íslandsbanka hafi verið innifalin í fjárlögum, fjármálaáætlun og áætlunum um fjármögnun ríkissjóðs á árinu.
„Ríkisvíxlar eru fyrst og fremst notaðir til þess að jafna árstíðarsveiflur og aðrar sveiflur í sjóðstöðu innan árs. Undirliggjandi árstíðarsveifla (þ.e. án lánahreyfinga) í sjóðstöðu ríkissjóðs hefur undanfarin ár náð lágmarki á fyrri helmingi júlí sem yfirleitt hefur leitt til hækkunar víxlastöðu yfir sumartímann,“ segir í bréfi FMR til Viðskiptablaðsins.
Þá bendir fjármálaráðuneytið á að víxlastaðan hafi lækkað um tæplega 70 milljarða síðastliðið ár en sem fyrr segir fór salan á eftirstandandi hlut ríkisins í Íslandsbanka fram í maí síðastliðnum.
Í júlí í fyrra stóð ríkivíxlastabbinn í um 200 milljörðum króna.