Íbúar Sameinuðu arabísku furstadæmanna (SAF) hafa á síðustu mánuðum orðið uppspretta aukinnar eftirspurnar eftir lúxusíbúðum í London.
Ástæður þess eru lækkað fasteignaverð í bresku höfuðborginni og nýtt skattkerfi sem býður efnaðri útlendingum fjögurra ára skattleysi á erlendum tekjum og eignasköttum.
Sérfræðingar í fasteignaviðskiptum og skattalögfræði segja þetta hafa vakið áhuga bæði auðugra íbúa SAF og efnaðra Breta sem snúa heim eftir margra ára dvöl erlendis.
Lúxusfasteignamarkaðurinn í London hefur verið í lægð um árabil vegna hærri skatta, Brexit-óvissu og breytinga á skattalegri stöðu erlendra íbúa.
Í maí 2025 féllu fasteignaverð í Kensington og Chelsea í sitt lægsta gildi síðan 2013.
Þegar fjármálaráðherra Bretlands, Rachel Reeves, afnam svonefnda non-dom stöðu í fyrra og kynnti nýtt kerfi sem veitir erlendum fjárfestum og Bretum sem snúa heim skattfrelsi á erlendar tekjur í fjögur ár, varð London skyndilega álitlegri áfangastaður fyrir fjárfesta frá Miðausturlöndum.
„London lítur út fyrir að vera ódýrari en áður og við sjáum greinilega aukna eftirspurn frá Miðausturlöndum,“ segir James Forbes, stofnandi fasteignaráðgjafarfyrirtækisins Forbes Gilbert-Green.
Samkvæmt fasteignasölunni Knight Frank voru kaupendur frá SAF um 3% af erlendum kaupendum á lúxusmarkaðinum í miðborg London síðasta árið. Það er stór aukning frá 0,6% árið á undan.
Stuart Bailey, yfirmaður söludeildar hjá Knight Frank, segir að lægra verð og skattfríðindin hafi skapað kjörið tækifæri fyrir fjárfesta: „Ef þú ert frá SAF og hefur ekki áður keypt í London, þá er þetta rétti tíminn.“
Á sama tíma hafa fasteignaverð í Dubai rokið upp um 67% síðan 2019. Fjársterkir íbúar þar hafa því getað selt eignir með miklum hagnaði og notað fjármagnið til að fjárfesta á lágpunkti í London.
Ekki eru aðeins fjársterkir Miðausturlandabúar að nýta sér þetta tækifæri. Liza-Jane Kelly, yfirmaður íbúðasviðs Savills í London, segir að hún hafi undanfarið aðstoðað marga Breta sem hafa búið erlendis í mörg ár við að kaupa fasteignir í borginni.
„Sumir vilja veita börnum sínum aðgang að bresku menntakerfi, aðrir nýta sér skattaleg fríðindi. Margir þeirra eru að koma heim eftir 10–15 ár í Dubai,“ segir hún.
Samkvæmt Kelly keyptu tveir slíkir kaupendur nýlega eignir í Chelsea og Knightsbridge á bilinu 4–6,5 milljónir punda.
Áhugi fjárfesta úr Miðausturlöndum takmarkast ekki við íbúðarhúsnæði. Knight Frank segir að fjárfestar þaðan hafi sett 245 milljónir punda í breskar atvinnueignir á þessu ári, samanborið við 25 milljónir á öllu árinu 2024.
Þrátt fyrir ótta við að afnám non-dom stöðunnar myndi fæla auðuga erlenda íbúa frá Bretlandi, benda nýjustu tölur til þess að margir sjái nú Bretland sem hagstæðan áfangastað bæði til búsetu og fjárfestinga.
Fjármálaráðuneytið í London segir nýja kerfið sé bæði einfaldara og meira aðlaðandi:
„Bretland býður nú upp á lægri skatta og hagstæðara umhverfi en nokkurt annað G7-land í Evrópu,“ segir í yfirlýsingu ráðuneytisins.