Landsbankinn spáir því að vísitala neysluverðs hækki um 0,18% milli mánaða í ágúst og að ársverðbólga lækki úr 7,6% í 7,5%. Útsölulok hafa mest áhrif til hækkunar milli mánaða samkvæmt spánni.
Útsölur á fötum, skóm, húsgögnum og heimilisbúnaði hafa mest áhrif til hækkunar, gangi spáin eftir. Það sem helst dregur spána niður hins vegar er húsnæðisverð og árstíðabundin lækkun á flugfargjöldum til útlanda.
Bankinn býst einnig við því að reiknuð húsaleiga lækki milli mánaða annan mánuðinn í röð og telur að markaðsverð húsnæðis lækki um 0,8%. Samkvæmt mælingu HMS lækkaði vísitala íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu um sömu prósentu.
Áhrif vaxtahækkana hafa þó komið skýrt fram á íbúðamarkaði og gerir bankinn ráð fyrir að vísitala íbúðaverðs lækki áfram lítillega næstu mánuði.
„Samkvæmt verðmælingu okkar er meðalverð á bensínlítranum á höfuðborgarsvæðinu nú 309,2 krónur en var 307,2 krónur í júlí. Lítri af dísilolíu kostar 305,8 krónur og er óbreytt frá júlí. Vægi bensíns í vísitölunni er meira en dísilolíu og gerum við ráð fyrir að liðurinn bensín og dísilolía hækki um 0,5% milli mánaða,“ segir í greiningunni.
Landsbankinn segir hins vegar að breytingar á flugfargjöldum hafi komið á óvart. Á fyrstu fimm mánuðum ársins var að meðaltali 23% dýrara að fljúga til útlanda en á sama tímabili í fyrra. Í júní og júlí dróst þessi munur verulega saman og flugfargjöld voru aðeins 2% dýrari í júlí í ár en í fyrra, þrátt fyrir umtalsverða eftirspurn og sætanýtingu hjá bæði Icelandair og Play.
„Í spá okkar til næstu mánaða gerum við ráð fyrir að verð á flugfargjöldum til útlanda verði svipað og í fyrra. Þó er gott að hafa í huga að verð á flugfargjöldum sveiflast töluvert og erfitt að spá fyrir um breytingar milli stakra mánuða.“