Greiningardeild Landsbankans spáir því að peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands muni halda stýrivöxtum óbreyttum í næstu viku er nefndin kemur saman þrátt fyrir hjaðnandi verðbólgu og sátt á vinnumarkaði að mestu.
Í Hagsjá bankans er því spáð að vextir verði áfram óbreyttir í 9,25% en verðlag hækkaði umfram væntingar í febrúar og verðbólguvæntingar hafa lítið breytt frá síðasta fundi nefndarinnar.
„Auk þess ríkir enn óvissa um framvindu kjarasamninga annarra hópa. Við teljum þó að tónninn í yfirlýsingunni verði bjartari en verið hefur og að vaxtalækkun kunni að vera handan við hornið,“ segir í Hágsjánni.
Að mati bankans er það þó ekki óhugsandi að nefndin lækki vexti um 0,25%. Peningastefnunefndin hefur haldið vöxtum óbreyttum við síðustu þrjár vaxtaákvarðanir en fyrsta ákvörðunin kom í október þegar mikil óvissa ríkti um horfur í efnahagslífinu.
„Tónninn í síðustu yfirlýsingu var nokkuð bjartur, en þó var tekið fram að langtímaverðbólguvæntingar hefðu lítið breyst og haldist yfir markmiði, enn væri spenna á vinnumarkaði og að verðbólga gæti enn reynst þrálát. Nefndarmenn voru allir nema einn sammála um að halda vöxtum óbreyttum, en sá greiddi atkvæði gegn tillögu seðlabankastjóra um óbreytta vexti og vildi heldur lækka um 0,25 prósentustig,“ segir í Hagsjá bankans.