Verkalýðsfélag þúsunda starfsmanna bandarísku kaffikeðjunnar Starbucks hefur tilkynnt að það muni hefja verkfall á einum annasamasta tíma ársins. Ákvörðunin hefur verið tekin eftir áralanga baráttu milli Starbucks og Starbucks Workers United.

Verkfallið hófst í dag hjá um 200 útibúum en báðar hliðar deila um laun, vinnutíma og önnur málefni.

Búist er við því að verkfallið muni standa yfir í nokkra klukkutíma hjá sumum kaffihúsum en hjá öðrum verður lokað mestan hluta dagsins. Verkfallið hefst einnig á sama tíma og rauðu bollarnir svokölluðu verða teknir í notkun en þeir eru notaðir yfir jólatímann.

Michelle Eisen, ein af leiðtogum verkalýðsfélagsins, segir að Starbucks verði að gera betur við starfsfólk sitt og býst við stuðningi frá bæði viðskiptavinum og aðgerðarsinnum.

Starbucks rekur rúmlega 10.000 kaffihús um alla Bandaríkin og segist ekki búast við mikilli truflun á starfsemi. Fyrirtækið segir að það hafi eytt hundruðum milljóna dala í hærri laun, þjálfun og nýjan búnað og kennir verkalýðsfélaginu um tafir á samningaviðræðum.

Eisen hefur vitnað í önnur verkföll hjá verkalýðsfélögum eins og UPS sem höfðu betur í samningaviðræðum og fengu hærri laun. „Það er eins og þessi herferð hafi kveikt bál hjá verkalýðshreyfingunni í þessu landi og hér erum við að berjast.“