Reitir fasteignafélag hf. og verktakafyrirtækið Þarfaþing ehf. hafa skrifað undir viljayfirlýsingu um að hefja hönnunarvinnu á Kringlureit. Þetta kemur fram í tilkynningu Reita til Kauphallarinnar.
Reitir og Þarfaþing lýsa jafnframt yfir sameiginlegum vilja til að ganga til samninga um samstarf vegna uppbyggingar 170 íbúða á A-reit Kringlureits á grundvelli þeirra forsendna sem mótast hafa í samningaviðræðum aðila að undanförnu. Heildarumfang samstarfsins gæti numið allt að 10 milljarðar króna.
Verkið sem um ræðir felur í sér alverktöku við hönnun og byggingu fullbúins íbúðarhúsnæðis og bílageymslu.
Aðilar eru að vinna að gerð verksamnings sín á milli og hafa einsett sér það markmið að ljúka samningsgerð fyrir lok september 2025.
„Hin nýja íbúðabyggð við Kringluna byggir á metnaðarfullu skipulagi og samræmdum skilmálum innan hverfisins. Lögð verður áhersla á umhverfisvæna byggð, góðar samgöngur og þjónustu. Við hönnun verkefnisins verður leitast við að skapa metnaðarfullar og glæsilegar byggingar sem njóta sín í fallegu umhverfi, þar sem leitast verður við að hámarka notagildi íbúða til að nýta útsýni, birtu og staðsetningu til fullnustu,“ segir í tilkynningu Reita.
Borgarráð samþykkti í lok mars samkomulag við Reiti um fyrsta áfanga uppbyggingar á Kringlusvæðinu.
Samkvæmt hugmynd lóðarhafa er gert ráð fyrir að byggðar verði um 418 íbúðir auk atvinnuhúsnæðis á lóðunum. Þá sé um að ræða rúma 56 þúsund fermetra af íbúðafermetrum og rúmlega 11 þúsund fermetra af atvinnuhúsnæði.
Í fjárfestakynningu sem Reitir birtu í dag kemur fram að niðurrif gamla Morgunblaðshússins hófst í lok síðustu viku. Auglýsing á deiliskipulagi sé lokið og frestur til þess að skila athugasemdum vegna skipulagsins rann út í sumar.
Í uppgjörstilkynningu sem Reitir birtu einnig í dag segir fasteignafélagið að til lengri tíma litið muni þróunarverkefni, líkt og á Kringlureitnum, standa undir meirihluta þess vaxtar sem félagið hefur sett sér markmið um í vaxtarstefnu sinni.
Fjárfest fyrir 9,2 milljarða í ár
Reitir högnuðust um tæplega 1,7 milljarða króna á öðrum ársfjórðungi, samanborið við 6,7 milljarða á sama tímabili í fyrra. Munurinn skýrist einkum af því að matsbreyting fjárfestingareigna var um 2,5 milljarða á öðrum ársfjórðungi 2025, samanborið við 8,9 milljarðar á sama tímabili í fyrra.
Hreinar leigutekjur jukust um 7,9% milli ára og námu 3.157 milljónum króna á fjórðungnum. Rekstrarhagnaður fyrir matsbreytingar jókst um 6,4% og nam 2.873 milljónum króna.
Fasteignafélagið hefur fjárfestu fyrir 9,2 milljarða króna í ár og þar eru meðtaldar skuldbindingar félagsins til fjárfestinga á upphafi þriðja ársfjórðungs. Fjárfestingin skiptist jafnt á milli kaupa á nýjum eignum og endurbóta og framkvæmda innan núverandi eignasafns.
„Arðsemi er áfram eitt helsta leiðarljós í fjárfestingum félagsins. Nýjar eignir sem bættust við eignasafnið á árinu skila 8,1% arðsemi og er áætluð tekjuaukning vegna þeirra um 424 millj. kr. ár ársgrunni. Meðal þessara eigna eru Bæjarlind 12, Víkurhvarf 6 og Hlíðarsmári 5-7, þar sem 201 Hótel er með starfsemi sína.“
