Útgáfa kínverskra Dim sum-skuldabréfa, sem gefin eru út í júönum utan meginlands Kína, stefnir í metár árið 2025.
Ástæðan eru hagstæð vaxtakjör í Kína sem gera gjaldmiðilinn aðlaðandi fyrir alþjóðleg fyrirtæki á sama tíma og mörg þeirra eru að draga úr vægi dollara í fjármögnun sinni.
Samkvæmt Financial Times hafa það sem af er ári verið gefin út skuldabréf í júan að andvirði 475 milljarða júana (um 66 milljarðar Bandaríkjadala), sem þýðir að árið er þegar á góðri leið með að slá met síðasta árs.
Sérfræðingar búast við áframhaldandi aukningu á útgáfu skuldabréfa þar sem lágt vaxtastig í Kína veitir fyrirtækjum tækifæri til að fjármagna sig á mun hagstæðari kjörum en í Bandaríkjunum eða Evrópu.
Samkvæmt sérfræðingum hjá JPMorgan eru nú meiri viðskiptaumsvif milli Asíuríkja og Kína en milli Kína og Bandaríkjanna, sem eykur eftirspurn eftir júanum sem viðskiptamynt og þar með eftir júan-skuldabréfum.
Á meðal stórfyrirtækja sem hafa nýtt sér þennan möguleika á árinu eru fjárfestingafélagið Temasek í Singapúr, bandaríski vátryggingarisinn Chubb og svissneski matvælarisinn Nestlé.
Kostnaður við að gefa út skuldir í júan er verulega lægri en í dollurum. Meðalvaxtakjör „Dim sum“-skuldabréfa eru nú 1,83% á móti tæpum 5% fyrir dollarskuldir. Fyrirtæki geta því jafnvel gefið út skuldir í júan, breytt þeim í aðra mynt og samt sem áður fengið hagstæðari kjör en ella.
Einnig eru minni takmarkanir á flutningi fjármagns sem aflað er með skuldabréfaútgáfum í Hong Kong, þar sem þessi bréf eru gefin út, en gilda um fjármagn sem kemur frá meginlandi Kína.
Mikil eftirspurn kínverskra fjárfesta hefur einnig aukið vöxt markaðarins. Svonefnt Bond Connect-kerfi, sem gerir fjárfestum kleift að kaupa skuldabréf í Hong Kong, var stækkað í júní þannig að meðal annars tryggingafélög fá nú að taka þátt. Áætlað er að árlegt hámark viðskipta í gegnum kerfið verði tvöfaldað í eina billjón júana á þessu ári.
Heitið „Dim sum“ kemur til af því að skuldabréfin eru að mestu leyti gefin út í Hong Kong, þar sem dim sum-réttir eru vinsælir í kantónskri matargerð.
Skuldabréfin eru gefin út í kínverskum júan en utan meginlands Kína og eru því sveigjanlegri fyrir alþjóðlega fjárfesta sem vilja fjárfesta í kínverskum gjaldmiðli en án þess að vera háðir regluverki meginlandsins.
Þó að þessi markaður sé enn lítill miðað við skuldabréfamarkað meginlandsins er hann talinn skipta sífellt meira máli þar sem alþjóðlegir fjárfestar leita leiða til að dreifa áhættu sinni og minnka vægi dollara í eignasöfnum sínum.