Innflæði í kauphallarsjóði í Bandaríkjunum fór í fyrsta sinn í sögunni yfir 1 billjón (e. trillion) dala í fyrra og jukust eignir sjóðanna um 30% á árinu.
Samkvæmt The Wall Street Journal sneru fjárfestar aftur í kauphallarsjóði eftir fremur dræmt innflæði á árinu á undan.
Hlutabréfamarkaðurinn vestanhafs átti heilt yfir mjög gott ár og hækkaði S&P 500 vísitalan um 25% á árinu.
Að sögn WSJ var mikið um að fjárfestar væru að færa sig úr verðbréfasjóðum í kauphallarsjóði meðal annars vegna skattabreytinga vestanhafs.
Heildareignir kauphallarsjóða námu 10,6 billjónum dala í lok nóvember samkvæmt gögnum frá ETFGI, en það samsvarar um 30% hækkun frá ársbyrjun 2024.
„Fjárfestar virðast hafa endurheimt sjálfstraust sitt í fyrra,“ segir Brian Hartigan, yfirmaður kauphallarsjóða og vísitölufjárfestinga hjá Invesco. „Stemningin var áhættusækin.“
Stóru eignastýringarfélögin í Bandaríkjunum hafa verið að hagnast vel á þessu aukna innflæði og skilaði Blackrock til að mynda mettekjum í stjórnunargjöldum á árinu og fóru hlutbréf félagsins í hæstu hæðir.
Árið var einnig öflugt fyrir smærri sjóðastýringarfyrirtæki sem sérhæfa sig í virkri stýringu kauphallarsjóða.
Stærstu S&P 500-sjóðirnir leiddu aðra sjóði þegar kom að innstreymi fjár.
QQQ-sjóður Invesco, sem fylgir Nasdaq-100 vísitölunni, laðaði til sín meira en 27 milljarða dala í nýju fjármagni fram í miðjan desember. Þetta er eftirtektarvert, sérstaklega í ljósi þess að QQQ fékk 7,3 milljarða dala innstreymi allt árið 2023, að sögn Hartigans.
Fjárfestar voru sérstaklega bjartsýnir vikurnar eftir að Donald Trump var endurkjörinn forseti, en í nóvember var sett mánaðarlegt met þegar 164 milljarðar dala runnu inn í kauphallarsjóði.
Margir vonast til að lægri skattar og minni reglubyrði muni áfram hvetja til vaxtar á þegar sterkum hlutabréfamarkaði á seinna kjörtímabili Trumps.
Skuldabréfasjóðir, sem mynda minni hluta markaðarins samanborið við hlutabréfasjóði, áttu einnig gott ár.
Þeir nutu góðs af því að fjárfestar reyndu að tryggja sér háa ávöxtun á meðan Seðlabanki Bandaríkjanna hóf að lækka skammtímavexti.
Þótt innstreymi í hlutabréfasjóði hafi verið meira en tvöfalt hærra en í skuldabréfasjóði fram í lok nóvember jukust skuldabréfasjóðir hlutfallslega hraðar miðað við upphaflegt eignarhlutfall. Innstreymi ársins samsvaraði nærri 20% af heildareignum í byrjun ársins.