Fred Smith hefur ákveðið að láta af störfum sem forstjóri flutningafélagsins sem hann stofnaði fyrir 50 árum síðan. Smith, sem verður 78 ára gamall í ágúst, verður þó áfram stjórnarformaður félagsins. Smith hefur gegnt stöðu forstjóra hjá FedEx nánast alveg frá stofnun fyrirtækisins.
Arftaki hans er hinn 54 ára gamli Raj Subramaniam sem hefur starfað hjá FedEx í meira en 30 ár og hefur gegnt stöðu rekstrarstjóra (COO) frá árinu 2019. Í frétt WSJ segir að Subramaniam hafi stýrt stókn FedEx á markaði netverslana. Hann tekur formlega við af Smith þann 1. júní næstkomandi.
Í bréfi til starfsfólks sagði Smith að hann hafi tímasett ráðninguna á 50 ára afmæli fyrirtækisins. „Þó ég sé afar stoltur af því sem við höfum byggt upp saman þá er ég ekki hrifin af því að horfa í baksýnisspegilinn,“ skrifaði Smith. „Við þurfum alltaf að horfa fram á við.“
Fékk miðlungseinkunn fyrir hugmyndina
Í umfjöllun Financial Times segir að Smith hafi skrifað grein árið 1965, þegar hann stundaði hagfræðinám við Yale háskólann, um tengiflugsleiðakerfi (e. hub-and-spoke delivery network) með flota af þotum sem flogið yrði á næturnar til að mæta þörfum tæknidrifinna fyrirtækja um stuttan afhendingartíma vara. Umrædd grein, sem er sögð hafa lagt grunninn að hugmyndinni um FedEx, skilaði honum þó einungis miðlungseinkunn.
FedEx var stofnað árið 1971 en flutningarnir hófust í apríl 1973 með fjórtán Dassault Falcon 20 þotum. Smith, sem var 29 ára á þeim tíma, hafði þegar gegnt herþjónustu í Víetnam í tvígang og mótaði hann ýmsar starfsreglur út frá reynslu sinni í hernum.
„Forystuhæfileikar sem kenndir eru í hernum eru þeir bestu, og það er mjög einföld skýring á því. Hjá öllum stofnunum ertu í raun að tala um hvernig nú nærð valkvæðu framlagi frá fólki með skipulögðum markmiðum,“ sagði Smith við nemendur í Yale háskólanum árið 2007.
Tap var á rekstri FedEx á fyrstu tveimur rekstrarárunum. Í ævisögu eins stjórnenda var sagt frá því að einungis 5 þúsund dalir hafi verið á innlánsreikningi fyrirtækisins á einum föstudegi í júlí 1975. Mánudaginn næsta var fjárhæðin þó komin upp í nærri 32 þúsund dali þar sem Smith hafði flogið til Las Vegas og unnið 27 þúsund dali í fjárhættuspili.
FedEx varð fyrsta bandaríska fyrirtækið til að ná einum milljarði dala í veltu á sínum fyrsta áratug í rekstri án samruna eða með yfirtökum. Flutningafyrirtækið er í dag með 84 milljarða dala í árlegar tekjur, með 600 þúsund starfsmenn og 60 milljarða dala markaðsvirði.