Viðskiptablaðið sagði frá því fyrir rúmu ári síðan að fjármögnunarumhverfi íslenskra sprotafyrirtækja væri líklega sterkara en nokkru sinni fyrr. Þá hafði fimm íslenskum vísisjóðum upp á rúmlega 40 milljarða króna verið komið á laggirnar á árinu. Í dag er fjárfestingargeta vísisjóðanna rúmlega 30 milljarðar króna.

Jenný Ruth Hrafnsdóttir, einn af stofnendum og meðeigendum Crowberry Capital, segir Crowberry hafa fjárfest í Norrænum tæknisprotum frá árinu 2017 og sé með um 17 milljarða króna í stýringu. Árið 2022 hafi verið það fyrsta frá upphafi Crowberry, sem markaðir hnignuðu.

„Í slíku árferði er mikilvægt að minna sig á líftíma vísisjóða en hann er yfirleitt um 10 ár og því hafa örari sveiflur lítil áhrif á langtímaávöxtun vísisjóða. Jafnframt mætti ætla að háir stýrivextir ógni eignaflokknum en ef skoðuð er ávöxtunarkrafan að baki sérhverri vísifjárfestingu þá er hún um tífalt hærri en stýrivextir eru nú um mundir. Nú kann einhver að spyrja, hvers vegna í ósköpunum er þessi ávöxtunarkrafa svona há? Svarið er einfalt, um 10% sprotafyrirtækja komast á legg. Lífslíkurnar hækka talsvert við fyrstu vísifjármögnun en þó aðeins í um 25%,“ segir Jenný Ruth.

Hún nefnir mikilvægi þess að byggja stór og sterk eignasöfn innan vísisjóðanna þar sem frumkvöðlar geti skipst á ráðum og stutt hver við annan. Þeirra starf sé því alls ekki hefðbundið sjóðstjórastarf heldur felist það að mestu leyti í að finna bestu frumkvöðlateymin, fylgjast með straumum og stefnum í tækni og byggja upp tengslanet við vísifjárfesta fyrir áframhaldandi fjármögnun sprota.

„Síðast en ekki síst felst starfið í því að halda vel utan um eignasafnið og styðja við fyrirtækin í sínum daglegu áskorunum í vöruþróun og markaðssetningu.“

Fréttin er hluti af lengri umfjöllun í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins, sem kom út 4. janúar.