Gengi krónunnar hækkaði um 1,5% á síðasta ári en til­tölu­lega sam­felld hækkun var frá byrjun ársins og fram í ágúst, sam­kvæmt fjár­mála­stöðug­leika­skýrslu Seðla­banka Ís­lands.

Hækkun á gengi krónunnar nam um 7,6% fyrri hluta árs en hún gekk svo að mestu til baka um haustið.

Veru­leg lækkun varð á fram­virkri gjald­eyris­stöðu bankanna í ágúst og septem­ber en þá fækkaði fram­virkum samningum með krónuna um 40% og mót­aðilum bankanna í slíkum samningum um 30%.

Samkvæmt Seðlabankanum hefur fram­virka gjald­eyris­staðan aftur á móti hækkað aftur undan­farna mánuði og gengi krónunnar er tæp­lega 1% hærra en um síðustu ára­mót.

Flökt í gengi krónunnar jókst þó síðasta haust en ó­vissa um á­hrif jarð­hræringa á Reykja­nesi á ís­lenskt þjóðar­bú varð meiri í nóvember við rýmingu Grinda­víkur.

„Þá hækkaði gengið skarpt daginn sem til­kynnt var um mögu­legt yfir­töku­til­boð mat­væla­tækni­fyrir­tækisins John Bean Technologies Cor­por­ation (JBT) í allt hluta­fé Marels hf. Velta á milli­banka­markaði með gjald­eyri jókst með auknu flökti og tæp­lega þre­faldaðist á milli mánaða í nóvember,“ segir í skýrslunni.

Í sama mánuði beitti Seðla­bankinn inn­gripum þegar hann seldi gjald­eyri fyrir 2,8 milljarða króna.

SÍ keypti erlendan gjaldeyri fyrir 9 milljarða

Seðla­bankinn segir að öðru leyti hafi velta á milli­banka­markaði verið til­tölu­lega hóf­leg undan­farin misseri og flökt lítið í sögu­legu sam­hengi, sem bendir til þess að flæði gjald­eyris sé í fremur góðu jafn­vægi.

Það sem af er ári hefur Seðla­bankinn átt ein við­skipti á milli­banka­markaði með gjald­eyri en í febrúar keypti bankinn er­lendan gjald­eyri fyrir ríf­lega 9 milljarða í ein­skiptis­við­skiptum.

Sama dag var út­boð Lána­mála ríkis­sjóðs á ríkis­skulda­bréfa­flokkunum RIKB 26 og RIKB 35 fyrir um 21 milljarða króna en er­lendir aðilar keyptu fyrir tæp­lega 15 milljarða í út­boðinu.