Gengi krónunnar hækkaði um 1,5% á síðasta ári en tiltölulega samfelld hækkun var frá byrjun ársins og fram í ágúst, samkvæmt fjármálastöðugleikaskýrslu Seðlabanka Íslands.
Hækkun á gengi krónunnar nam um 7,6% fyrri hluta árs en hún gekk svo að mestu til baka um haustið.
Veruleg lækkun varð á framvirkri gjaldeyrisstöðu bankanna í ágúst og september en þá fækkaði framvirkum samningum með krónuna um 40% og mótaðilum bankanna í slíkum samningum um 30%.
Samkvæmt Seðlabankanum hefur framvirka gjaldeyrisstaðan aftur á móti hækkað aftur undanfarna mánuði og gengi krónunnar er tæplega 1% hærra en um síðustu áramót.
Flökt í gengi krónunnar jókst þó síðasta haust en óvissa um áhrif jarðhræringa á Reykjanesi á íslenskt þjóðarbú varð meiri í nóvember við rýmingu Grindavíkur.
„Þá hækkaði gengið skarpt daginn sem tilkynnt var um mögulegt yfirtökutilboð matvælatæknifyrirtækisins John Bean Technologies Corporation (JBT) í allt hlutafé Marels hf. Velta á millibankamarkaði með gjaldeyri jókst með auknu flökti og tæplega þrefaldaðist á milli mánaða í nóvember,“ segir í skýrslunni.
Í sama mánuði beitti Seðlabankinn inngripum þegar hann seldi gjaldeyri fyrir 2,8 milljarða króna.
SÍ keypti erlendan gjaldeyri fyrir 9 milljarða
Seðlabankinn segir að öðru leyti hafi velta á millibankamarkaði verið tiltölulega hófleg undanfarin misseri og flökt lítið í sögulegu samhengi, sem bendir til þess að flæði gjaldeyris sé í fremur góðu jafnvægi.
Það sem af er ári hefur Seðlabankinn átt ein viðskipti á millibankamarkaði með gjaldeyri en í febrúar keypti bankinn erlendan gjaldeyri fyrir ríflega 9 milljarða í einskiptisviðskiptum.
Sama dag var útboð Lánamála ríkissjóðs á ríkisskuldabréfaflokkunum RIKB 26 og RIKB 35 fyrir um 21 milljarða króna en erlendir aðilar keyptu fyrir tæplega 15 milljarða í útboðinu.