Hlutabréfaverð Sýnar hækkaði um 4,7% í 587 milljóna króna veltu í dag. Við opnun Kauphallarinnar í morgun fóru í gegn viðskipti með tæplega 9,4 milljónir hluti í fjarskiptafélaginu, eða sem nemur um 0,35% af hlutafé Sýnar, á genginu 54 krónum á hlut. Kaupverðið nam því 509 milljónum króna. Gengi Sýnar hækkaði þegar leið á daginn og stóð í 55,5 krónum við lokun Kauphallarinnar.
Síminn hækkaði einnig um 0,8% í 211 milljóna króna veltu. Gengi félagsins stendur nú í 12,7 krónum og hefur aldrei verið hærra.
Úrvalsvísitalan lækkaði hins vegar um 0,6% í viðskiptum dagsins. Hlutabréfaverð Marels lækkaði um 1,1% í 185 milljóna veltu og stendur nú í 730 krónum. Mesta lækkunin var hjá SKEL en bréf fjárfestingafélagsins féllu um 3%, þó í takmarkaðri veltu.
Gengi Iceland Seafood International (ISI) lækkuðu um 2,5% í 213 milljóna veltu og er nú komið niður í 11,8 krónur. Hlutabréfaverð félagsins hefur ekki verið lægra síðan í desember 2020. Í gær birtist tilkynning um að Ecock Holdings Ltd, félag tengt Ken og Trevor Ecock sem stýra dótturfélagi Iceland Seafood í Írlandi, hafi selt hlut í ISI fyrir tæplega 230 milljónir króna.