Úrvalsvísitalan lækkaði um 1,2% í 2 milljarða króna veltu á aðalmarkaði Kauphallarinnar í dag. Sautján félög aðalmarkaðarins lækkuðu og tvö félög hækkuðu í viðskiptum dagsins.

Fjölmiðla- og fjarskiptafélagið Sýn leiddi lækkanir en gengi félagsins lækkaði um 5,3% í 18 milljóna króna veltu og stendur nú í 25,2 krónum á hlut. Hlutabréfaverð Sýnar er nú um 22% lægra en í upphafi árs.

Félagið birti árshlutauppgjör eftir lokun markaða í gær þar sem greint var frá 174 milljóna tapi á öðrum ársfjórðungi.

Amaroq og Alvotech lækkað um 40% í ár

Auk Sýnar lækkuðu fjögur önnur félög um meira en tvö prósent í gær. Meðal þeirra voru vaxtarfélögin Amaroq og Alvotech en velta með bréf beggja félaga nam yfir hundrað milljónum króna.

Hlutabréfaverð Amaroq stendur nú í 110 krónum á hlut og hefur ekki verið lægra síðan í september 2024. Gengi félagsins hefur fallið um 40% í ár og er nú um 21,4% lægra en 144 króna útgáfuverðið í 7,6 milljarða króna hlutafjáraukningu félagsins í júní síðastliðnum.

Gengi hlutabréfa Alvotech stendur í 1.005 krónum á hlut og er um 24% undri 1.320,8 krónu útgáfuverðinu í 10 milljarða króna hlutafjáraukningu líftæknifyrirtækisins í byrjun júní. Alls hefur gengi Alvotech fallið um 43% í ár.