Fjölmiðla- og fjarskiptafyrirtækið Sýn tapaði 174 milljónum króna á öðrum ársfjórðungi, samanborið við 186 milljóna tap á sama tímabili í fyrra. Taprekstur félagsins á fyrstu sex mánuðum ársins nam 518 milljónum króna.

Sýn birti árshlutauppgjör eftir lokun Kauphallarinnar í gær.

Heildartekjur Sýnar á öðrum ársfjórðungi námu 5.357 milljónum króna samanborið við 5.286 milljónir á sama tímabili í fyrra og jukust um 1,4% milli ára. Fram kemur að tekjur af fjölmiðlun, interneti og farsímaþjónustu (án IoT) jukust um 3,4% á milli tímabila.

Rekstrarhagnaður (EBIT) Sýnar á öðrum fjórðungi nam 66 milljónum króna samanborið við 63 milljónir á fyrra ári.

Eignir Sýnar námu 30,1 milljarði króna í lok júní og eigið fé var um 8,1 milljarður króna. Eiginfjárhlutfallið í lok júní var 27,1%.

Herdís Dröfn Fjeldsted, forstjóri Sýnar, segir að góðum árangri hafi verið náð í því að auka hagræði í rekstri og fjárfestingar séu markvissari en áður. Þetta hafi skilað sér í bættum rekstrargrunni.

„Heildarniðurstaðan eftir fyrstu sex mánuði ársins er því jákvæð: rekstur er í takt við áætlanir, kjarnatekjur sýna vöxt og félagið stendur traustum fótum.

Með skýrri sýn, einfaldara vöruframboði, sterku vörumerki, Enska boltanum og áframhaldandi skilvirkni í rekstri erum við vel í stakk búin til að skapa viðskiptavinum betri upplifun og hluthöfum virði til framtíðar.“

Hún nefnir að árið til þessa hafi verið viðburðarríkt hjá félaginu, annars vegar vegna endurmörkunar á vörumerkjum félagsins ásamt því að Sýn tók við Enska boltanum í sumar.

Herdís gagnrýnir bráðabirgðaákvörðun Fjarskiptastofu – um að Sýn beri að afhenda línulegar útsendingar sínar á kerfi Símans, en geti ekki einangrað þær við eigin forrit og myndlykla – og segir hana ganga gegn grundvallarreglum um samkeppni og jafnræði á markaði.

„Við teljum að með ákvörðuninni sé verið að draga úr hvata til þróunar á nýjum og hagkvæmari lausnum fyrir neytendur.“