Hleðslustöðvarfyrirtækið Ísorka tapaði 33,8 milljónum króna á árinu 2024, samanborið við 5,5 milljóna hagnað árið áður.
Velta Ísorku, sem er með um 4.200 hleðslustöðvar í neti sínu, dróst saman um 2,1% milli ára og nam 637 milljónum króna. Rekstrargjöld drógust saman um 0,8% og námu 645 milljónum. Ársverkum fjölgaði úr 19 í 20 milli ára.
Rekstrarafkoma (EBIT) var neikvæð um 7,4 milljónir í fyrra, en var til samanburðar jákvæð um 711 þúsund krónur árið áður. Hrein fjármagnsgjöld námu 38 milljónum samanborið við 7 milljónir árið áður.
Eignir félagsins voru bókfærðar á 453 milljónir króna í árslok 2024, samanborið við 530 milljónir ári áður. Eigið fé var jákvætt um 6 milljónir.
Egg ehf., móðurfélag bílaumboðsins BL, er aðaleigandi Ísorku með 89,2% hlut. Sponsinn ehf., félag í eigu Sigurðar Ástgeirssonar, stofnenda Ísorku, á 11% hlut í hleðslufyrirtækinu.
Ísorka hóf formlega starfsemi í árslok 2016 og var fyrst fyrirtækja á Íslandi til að hefja gjaldtöku fyrir hleðslu á hleðslustöðvum.
Salóme Guðmundsdóttir tók í vor við af Sigurði Ásgeirssyni sem framkvæmdastjóri félagsins.