Athafnamaðurinn Jón Gunnar Geirdal segir að söluráðstefnan með Jordan Belfort, betur þekktur sem úlfurinn á Wall Street, sem haldin var í Háskólabíói árið 2014 hafi verið það verkefni sem hann tapaði mestu af á ferlinum. Belfort fékk um tólf milljónir króna fyrir ráðstefnuna að sögn Jón Gunnars sem var gestur í nýjasta þætti hlaðvarpsins Chess After Dark.

Belfort efnaðist verulega á verðbréfafyrirtækinu Stratton Oakmont sem hann stofnaði árið 1989 en hann ásamt öðrum stjórnendum fyrirtækisins voru fundnir sekir fyrir verðbréfasvik og peningaþvott. Belfort var leikinn af Leonardo DiCaprio í kvikmyndinni The Wolf of Wall Street sem kom út árið 2013.

Jón Gunnar heillaðist af myndinni og hafði áhuga á að fá hann til að halda ráðstefnu hér á landi til að kenna sölumennsku. Hins vegar hafi umræðan hér snúist á annan endann og verkefnið ekki heppnast jafnvel og vonast var til.

„Allt í einu var ég farinn að svara prestum og öðu fólki sem mætti á Bylgjuna til að tala um komu hans. Það hélt að við værum að fara lóðbeint í hrunið aftur af því að Belfort var að mæta,“ segir Jón Gunnar.

Upphaflega stóð til að selja allt að þúsund miða á viðburðinn en þegar uppi var staðið sóttu um 300 manns ráðstefnuna. Miðaverð var á bilinu 39-49 þúsund krónur.

Fann hvað það var stutt í púkann

Jón Gunnar segir þó að viðburðurinn hafi verið skemmtilegur og hann eigi frábærar sögur frá verkefninu. Þeir fóru saman í þyrluflug sem endaði með þvi að Belfort tók við af flugmanninum og lenti þyrlunni á Eyjafjallajökli.

Belfort var heillaður af Íslandi en að sögn Jón Gunnars skildi hann ekki hvernig atvinnurekstur gæti gengið upp í svo smáu hagkerfi. Ísland væri álíka stórt og lítið hverfi í New York hvað íbúafjölda varðar.

„[Belfort] fattaði það ekki hvernig atvinnurekstur gæti gengið upp á Íslandi. Hann hélt bara að allir á Íslandi sem væru í einhverjum rekstri héldu úti netverslanir til að slelja vörur sínar erlendis.“

Í framangreindri kvikmynd var dregin upp mynd af dýrum og glæfralegum lifnaðarháttum Belfort sem og harðri fíkniefnaneyslu hans. Jón Gunnar segir að það hafi ekki verið maðurinn sem hann kynntist en Belfort hafði tekið upp edrú lífsstíl.

„Ég skynjaði hins vegar hvað það var stutt í púkann – fann hvað þetta hefur verið skemmtilegt. Ég fann pínu söknuð í honum,“ segir Jón Gunnar og bætir við að Belfort hafi tjáð sér að senurnar í myndinni hefðu ekki verið jafnævintýralegar og í raunveruleikanum.

Hefði getað náð bílum og húsum af Myndformsbræðrunum

Spurður um best heppnaða verkefnið á sínum ferli, þá rifjar Jón Gunnar upp sögu af því þegar hann var ráðinn af tvíburabræðrunum Gunnari og Magnúsi Gunnarssonum, sem eiga Laugarásbíó og framleiðslufyrirtækið Myndform ásamt Snorra Hallgrímssyni. Þeir höfðu tryggt sér dreifingarrétt hér á landi á Lord of the Rings kvikmyndundum og Jóni Gunnari var falið að sjá um markaðssetninguna.

Hann fór með bræðrunum á kvikmyndahátíðina í Cannes til að horfa á „hráan“ hálftíma af myndinni og hitta leikstjórann Peter Jackson.

„Tvíburunum fannst galið hvað þeir þurftu að borga mikið fyrir þessa þvælu,“ segir Jón Gunnar. Hann hafði hins vegar lesið bækurnar og sagði því við bræðurna: „heyrðu þetta verður risastórt, bara biðjið fyrir ykkur“.

„Ég gleymi aldrei prufusýningunni, þegar við fengum fyrst að sjá myndina í heild sinni. Ég hef aldrei tvíburana jafn stressaða og eftir myndina því þeim fannst hún glötuð.“

Lord of the Rings þríleikurinn átti hins vegar eftir að slá í gegn hér á landi og yfir 90 þúsund manns sóttu kvikmyndirnar þrjár í bíó að sögn Jón Gunnars. „Eftir á voru þeir skellihlæjandi.“

Jón Gunnar segist enn sjá eftir því að hafa ekki lagt undir veðmál við bræðurna um aðsóknartölur á kvikmyndirnar í bíóhúsum landsins.

„Ég hefði getið náð bílunum og húsunum af þeim ef ég hefði bara sagt „hver mynd tekur 30 þúsund manns í bíó“. Ef ég hefði sagt „hver mynd tekur 80 eða 90 þúsund manns“ þá hefðu þeir hlegið að mér og rétt mér lyklana að öllu.“