Tekjur Coca-Cola drógust saman um 28% á öðrum ársfjórðungi 2020 samanborið við sama tímabil í fyrra, úr 10 milljörðum dollara í 7,15 milljarða. Helmingur tekna hjá Coca-Cola kemur frá öðrum en heimilum, svo sem veitingastöðum, börum og viðburðum og því tekjusamdráttur félagsins skiljanlegur.
Hagnaður félagsins dróst saman um tæp 32% milli ára og nam 1,78 milljörðum dollara eða 41 senti á hlut. Sala félagsins jókst bæði í maímánuði og júní en fjármálastjóri Coca-Cola segir í viðtali við Wall Street Journal að mest óvissa ríki í Suður-Ameríku og Afríku.
Enn fremur segir félagið að það séu bjartari tímar framundan. Þrátt fyrir að sífellt fleiri greinist COVID-19 vestanhafs séu takmarkanir töluvert minni en á öðrum ársfjórðungi 2020 og ættu tekjur félagsins því að aukast.
Hlutabréf Coca-Cola hafa hækkað um rúmlega 2,3% það sem af er degi og er félagið metið á um 202 milljarða dollara.