Tekjur Formúlu 1 námu 24 milljónum dollara á öðrum ársfjórðungi samanborið við 620 milljónir árið áður og drógust því saman um meira en 96% milli ára. Miklar breytingar hafa orðið á núverandi keppnistímabili sem átti að byrja í mars en hófst ekki fyrr en í byrjun júlí, vegna frestana og aflýsinga móta sökum Covid. Financial Times segir frá .

Liberty Media, sem keypti F1 fyrir 8 milljarða dollara árið 2016, fékk engar sjónvarpstekjur eða þóknanir frá kostunaraðilum (e. promoters) á ársfjórðungnum. Það þarf að minnsta kosti 15 kappaksturskeppnir á núverandi keppnistímabili til að uppfylla sjónvarpssamninga, samkvæmt heimildum Financial Times.

Rekstrartap mótaraðarinnar nam 122 milljónum dollara, eða 16,7 milljörðum króna, á fjórðungnum þrátt fyrir að keppnislið fengu engar greiðslur. Í fyrra fengu liðin greitt 335 milljónir dollara í þóknanir fyrir þátttöku. F1 setti um það bil helming af 500 manna starfsliði sínu í launalaust leyfi í gegnum stuðningsaðgerðir breskra stjórnvalda en flestir þeirra sneru aftur til vinnu þegar keppni hófst á ný.