Hópur áhrifa­mikilla öldunga­deildarþing­manna Demókrata í Bandaríkjunum, þar á meðal Eliza­beth War­ren, Cory Booker og Chuck Schumer, hefur hvatt ríkis­stjórn Donalds Trump til að stöðva fyrir­hugaða sölu á hluta­fé í fast­eigna­lána­risunum Fanni­e Mae og Freddi­e Mac.

Sam­kvæmt The Wall Street Journal óttast þing­mennirnir að áformin gætu leitt til hærri íbúðalána­vaxta og þannig gert ungu fólki og fyrstu kaup­endum enn erfiðara fyrir að komast inn á húsnæðis­markaðinn.

Í bréfi sem sent var Willi­am Pulte, for­stjóra Federal Housing Finance Agen­cy (FHFA), í dag skora þeir á hann að beina sjónum sínum að húsnæðisöryggi og hag­kvæmni fremur en öðrum málum sem hafa ratað í fréttirnar, þar á meðal ágreiningi milli Trump og Seðla­bankans um meint fjár­svik.

Óvissa um áhrif á húsnæðis­markaðinn

Trump-stjórnin vinnur að því að selja hluta­fé í Fanni­e Mae og Freddi­e Mac í við­skiptum sem gætu aflað ríkis­sjóði allt að 30 milljarða dollara, að því er Wall Street Journal hefur áður greint frá. Fjár­festar óttast hins vegar að ef félögin verða að fullu einka­vædd gætu væntingar um ríkisábyrgð á starf­semi þeirra minnkað, sem gæti leitt til hærri vaxta á húsnæðislánum.

Þrátt fyrir að Scott Bes­sent, fjár­málaráðherra í ríkis­stjórn Trump, hafi lýst því yfir að ferlið verði var­lega fram­kvæmt til að koma í veg fyrir vaxta­hækkanir óttast Demókratar að hraðinn sé of mikill.

Vextir enn háir

Vaxta­stig í Bandaríkjunum hefur lækkað lítil­lega á síðustu vikum en er enn yfir 6,5%, sem er með því hæsta sem sést hefur í ára­tugi.

Sala íbúðar­húsnæðis í landinu er á lægsta stigi í marga ára­tugi, aðal­lega vegna hárra vaxta og skorts á fram­boði á hag­kvæmu húsnæði.

Demókratar leggja til að stjórn­völd ein­beiti sér að ráðstöfunum sem gætu aukið fram­boð á viðráðan­legu húsnæði, svo sem með því að styrkja lán til fjöl­býlis­húsa og endur­vekja reglur um sann­gjörn lána­skil­yrði.

Trump hefur sagt að með nýrri stjórn í Seðla­bankanum, eftir að Lisa Cook fer úr stjórn bankans, muni vaxtalækkanir koma hraðar og húsnæðis­markaðurinn batna.

Pulte, for­stjóri FHFA, sagði í yfir­lýsingu að stjórnin væri að „leiðrétta skaðann“ sem hún telur að hafi orðið á húsnæðis­markaðnum undir stjórn Joe Biden, Jerome Powell og Eliza­beth War­ren síðustu fjögur ár.

Fanni­e Mae og Freddi­e Mac hafa verið undir stjórn ríkisins frá fjár­mála­hruninu 2008 og hafa notið ríkisábyrgðar sem verndar fjár­festa gegn tjóni á íbúðalána­markaði.